Guðni forseti

Guðni Th. Jóhannesson vann embættiseið að stjórnarskránni með eigin undirritun þann 1. ágúst árið 2016 í Alþingishúsinu við Austurvöll. Í ávarpi sínu við innsetninguna sagði hann meðal annars:

„Forsetinn ræður sjaldnast úrslitum einn síns liðs. Ég tel sömuleiðis að hann eigi að öllu jöfnu að standa utan sviðs stjórnmálanna, óháður flokkum eða fylkingum. Í þessu embætti mun ég samt vekja máls á því sem mér býr í brjósti, benda á það sem vel er gert og það sem betur mætti fara.“

Eliza og Guðni fagna 26. júní 2016
Ljósmynd: Vísir/Anton Brink

„Við búum í gjöfulu landi og góðu. Við höfum skapað friðsælt velferðarsamfélag. Þar njótum við framtaks og starfa fyrri kynslóða. Ég leyfi mér að nefna hér eigin þakkarskuld við móður mína og föður heitinn.“

„Hvarvetna blasa við áskoranir. Náttúra Íslands er viðkvæm, við viljum bæði vernda hana og nýta á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þetta getur reynst vandasamt en skilum landinu til næstu kynslóða þannig að þær fái notið gæða þess og gagna eins vel og við. Það er sá strengur sem skiptir mestu máli. Hugum líka að loftslagsmálum, það munu afkomendur okkar örugglega kunna að meta.“

Guðni vinnur eið að stjórnarskránni
Ljósmynd: Forseti.is

„Minnumst þess samt hve saga okkar er margslungin. Gleymum ekki fjölmenningu landnámsaldar og þeim nánu tengslum við útlönd sem lögðu grunn að afrekum á sviði bókmennta og verklegum framförum síðar meir.“

„Segjum söguna í allri sinni dýrð og öllum sínum harmi, og með því lagi sem við kjósum á tuttugustu og fyrstu öldinni.“

Guðni flytur ávarp við innsetningu í embætti
Ljósmynd: Forseti.is

Guðni vitnaði í ljóð eftir Gerði Kristnýju:

Það bærist ekki hár
á höfði Jóns
þar sem hann trónir
staffírugur á stöplinum
og hvessir augun
út á Tjörnina.

Á hverju vori
gætir hann þess
að ungarnir komist upp
hikar ekki við
að stökkva niður
og stugga við
mávinum.

Guðni og Eliza fyrir utan þinghúsið
Ljósmynd: Forseti.is

„Hér er gömul saga sögð á nýjan hátt. Þannig verður liðin tíð litrík og fersk. Á sama hátt virðumst við Íslendingar ekki jafn einsleitir og áður fyrr. Við játum ólík trúarbrögð, stöndum sum utan trúfélaga, við erum ólík á hörund, við getum heitið erlendum eiginnöfnum, þúsundir íbúa þessa lands eiga sér erlendan uppruna og tala litla eða enga íslensku en láta samt gott af sér leiða hér.“

„Við lifum tíma fjölbreytni og megi þeir halda áfram þannig að hver og einn geti rækt sín sérkenni, látið eigin drauma rætast en fundið skjól og styrk í samfélagi manna og réttarríki hér á landi.“

Vigdís, Guðni, Eliza, Dorrit og Ólafur Ragnar
Ljósmynd: Forseti.is

„Eitt gildir þó um allar þjóðir, þá íslensku sem aðrar: Það sem sameinar þær verður að vega þyngra en það sem sundrar. Og hér hefur þjóðhöfðinginn hlutverki að gegna. Forseta ber að stuðla að einingu frekar, bera virðingu fyrir skoðunum annarra, varast að setja sig á háan hest.“

„Ekki er þar með sagt að ég megi ekkert mæla á forsetastóli nema það sem full samstaða er um, enda gæti ég þá í raun fátt sagt. Ólík sjónarmið verða að heyrast. Málefnalegur ágreiningur er til vitnis um þroskað og siðað samfélag.“

Í lok ræðu sinnar vitnaði Guðni í ljóð eftir Snorra Hjartarson, með þeim orðum að við þyrftum að varðveita trúna á hið góða:

Fegurð og góðvild
þetta tvennt og eitt
hvað er umkomulausara
í rangsnúnum heimi

Og þó mest af öllu
og mun lifa allt.

Eliza og Guðni
Ljósmynd: Forseti.is

. . .

Heimildir

Forseti.is: Guðni Th. Jóhannesson, innsetningarræða (2016).