Ólafur Ragnar forseti

Ólafur Ragnar Grímsson vann embættiseið að stjórnarskránni með eigin undirritun þann 1. ágúst árið 1996 í Alþingishúsinu við Austurvöll. Í innsetningarræðu sinni sagði hann meðal annars:

„Við eigum að vera bjartsýn þegar við hugum að möguleikum okkar sem þjóðar í náinni framtíð. Þróun heimsmála, vísinda og tækni er okkur á margan hátt hagfelld.“

„Við blasir ný veröld sem einkennist fremur af opnum samskiptum en af lokuðum valdakerfum. Hæfni og hugvit skipta meira máli en stærð og styrkleiki. Hinn smái getur haft til að bera snerpu og knáleik sem oft dugar ekki síður en afl risans við að hagnýta tækni nútímans.“

Ólafur Ragnar og Guðrún Katrín fagna 30. júní 1996
Ljósmynd: Gunnar V. Andrésson

„Ég hef nú unnið drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins. Með einlægri virðingu fyrir ákvæðum hennar tekst ég á hendur það trúnaðarstarf sem framar öðrum er tákn um sjálfstæði Íslendinga. En ekki verður allt skráð í lögbækur.“

„Að rækja starf forseta Íslands er fyrst og fremst þjónusta við þjóðina. Einungis dómgreind, lífsreynsla og lifandi tengsl við fólkið í landinu geta vísað forseta rétta leið í starfi.“

„Við þessi kaflaskipti í mínu lífi minnist ég allra þeirra sem mig hafa mótað, einkum móður minnar og föður, ömmu minnar og afa fyrir vestan sem veittu mér í æsku það veganesti sem ég tel mest um vert.“

Ólafur Ragnar og Guðrún Katrín á svölum þinghússins 1. ágúst 1996
Ljósmynd: Tíminn GS

. . .

Heimildir

Forseti.is: Ólafur Ragnar Grímsson, innsetningarræða (1996)