Vigdís forseti

„Ég er ekki karl og hef aldrei verið.

Mín grundvallarregla hefur alltaf verið

að vera ekkert að leika karl.“[2]

Vigdís Finnbogadóttir vann embættiseið að stjórnarskránni með eigin undirritun þann 1. ágúst árið 1980 í Alþingishúsinu við Austurvöll.

Í þessari myndgreiningu er fjallað um ljósmynd frá embættistökunni. Myndina tók Bjarnleifur Bjarnleifsson (1915-1987), ljósmyndari og skósmiður, sem þá starfaði fyrir Dagblaðið.

Leitast er við að greina myndina, túlka innihald og undirtexta hennar og draga fram menningarlegt og samfélagslegt samhengi. Stuðst er við kenningar Roland Barthes og tengdar heimildir; vefsvæði og ævisögu Vigdísar og vísað til hennar eigin orða. Myndin er varðveitt á Ljósmyndasafni Reykjavíkur.[1]

1. |  Skjálfti í sviðsljósinu

Kjör og valdataka Vigdísar var heimsviðburður. Ein af fáum stórfréttum sem þá höfðu ratað í heimspressuna frá litla Íslandi. Engin sérstök tíðindi lágu þó í loftinu af náttúrunnar hálfu og eldstöðvar í dróma þennan fyrsta ágústdag árið 1980. Í húsi við Aragötu var engu að síður handagangur í öskjunni, skjálfti í fólki og spenna í lofti. Þar var verið að undirbúa húsmóður fyrir kastljós heimsins.[3]

Vigdís vaknaði snemma. Síðdegis myndi hún stíga inn á stóra sviðið, taka við hlutverki sem engin kona hafði áður farið með, embætti forseta Íslands. Vatnaskil í sögunni, merk tímamót, dagrenning. Hið nýja ljósa man vakti athygli og sendi frá sér hlýja strauma. Erlendir fjölmiðlar sóttust eftir viðtölum og ágangur var mikill. Það jók á vinsældirnar að hún talaði mörg tungumál og var vel að sér í sögu og menningu. En var hún tilbúin?

Vigdís viðurkennir, að þvert á það sem margir haldi, reyni hún oftast að forðast sviðsljósið; „…ég er það feimin í eðli mínu. Mér líður ekki vel í viðtölum, finnst ég enn óörugg, og er alltaf hrædd um að standa mig ekki. Uppeldið enn og aftur. En það er líka uppeldinu að þakka að ég læt mig hafa það.“[4]

Að sögn Vigdísar var kosningabaráttan þolraun. Nánast hafi þótt dónalegt að kona væri að trana sér svona fram. Þrjár kynslóðir taki að breyta slíku hugarfari og stutt síðan konur hafi hætt að biðjast afsökunar á sjálfum sér. Hún hafi þó ekki haft mikinn tíma til að efast um eigið ágæti í baráttunni. Markmiðið hafi ekki verið að sigra: „Mitt takmark var að sanna að það væri sjálfsagður hlutur að kona væri meðal frambjóðenda og mér tókst það.“[5]

2. | Afturhvarf til fortíðar

Roland Barthes (1915-1980), hafði afgerandi áhrif á umræðu um túlkun og boðskap ljósmynda. Hvernig greina megi skilaboð og undirliggjandi myndmál – jafnvel kalla fram persónulega upplifun.

Barthes (2005) segir að myndir skapi ákveðna merkingu og innihaldi upplýsingar sem tjá megi með rituðu máli. Þannig megi lesa svokölluð málboð úr ljósmyndum; draga fram samfélagslega þræði og skrá sögulegar tengingar útfrá samsetningu og innihaldi – áferð, litum, ljósi og skuggum. Undirtexti birtist í huga fólks, oft ómeðvitað, þegar ljósmynd sé skoðuð og henni miðlað. Myndin standi þannig sjaldan ein, heldur byggi á myndmáli þar sem retórík myndarinnar leynist.

Barthes telur að siðmenning okkar byggi ekki á myndrænum hliðum tilverunnar, heldur sé fyrst og fremst menning hins ritaða máls. Hann varar við hugmyndum um að ljósmyndin búi yfir töframætti, þó vissulega geti hún verið kraftmikil miðlunarleið – verkfæri sem hafi getu til að bylta samfélagi, selja fólk, fiska og fjöll, réttlæta árásir eða stöðva stríð.

Kenningu Barthes má bera saman við eiginleika bóka, ritverka án myndefnis. Þegar slíkur texti er lesinn, birtast vissulega myndir, en aðeins í huga lesandans. Rituðu máli fylgja því ætíð myndrænar hliðar, sem eru eins margar og ólíkar og lesendurnir. Ritmál höfundar því aðeins skissa sem lesandinn klárar með því að framkalla mynd í huganum. Textar er vissulega mismyndrænir en þetta sýnir hversu litríkt ritað mál getur orðið, jafnvel þótt blekið sé svart og pappírinn hvítur.

Ljósmynd Bjarnleifs af embættistökunni er magnað og markvert afturhvarf til fortíðar. Þegar myndin er spegluð við þessar hugleiðingar Barthes, er auðvelt að skynja flóð samfélagslegra þráða – tengingar við sögu samfélagsins okkar og þróun síðustu áratuga, baráttu og breytingar, sorgir og sigra. Myndin flytur hugann á heimaslóðir og framkallar fallegar minningar og allskonar tilfinningar.

3. | Birtingarmynd samfélags

Ég var fimm ára þegar Vigdís var kjörin. Við vorum nágrannar. Slíkur heimsviðburður í næstu götu mótaði hugmyndaheim, enda minningin um sigurgleðina og fögnuðinn á Aragötunni enn ljóslifandi. Upplifunin hafði áhrif á lítinn mann sem skynjaði samhengi lítils lands. Að við værum þjóð meðal þjóða. Samfélag með stórt hjarta. Forsíðufréttir um áhuga heimsbyggðar voru sönnun þess að Vigdís hafði gert meira en að stríða körlunum. Við vorum komin á kortið.

Ljósmynd Bjarnleifs rammar inn sviðsmyndina sem blasti við Vigdísi á fyrsta vinnudeginum; karlavirkið í samfélaginu. Í þingsalnum voru aðeins fjórar konur af 150 boðsgestum; Halldóra Eldjárn og þrjár þingkonur. Allir ráðherrar og ráðuneytisstjórar voru karlar, allir dómarar, allir sýslumenn og 96% sveitarstjórnarfólks.

Sömu sögu var að segja í embættismannakerfinu og meðal forstjóra ríkisfyrirtækja.[6] En þarna á miðju gólfi löggjafans var kvenþjóðin engu að síður lent á fljúgandi teppi, staðráðin í að rjúfa þéttan virkisvegginn. Kvennaskeið var að hefjast, á karlavelli.

Augnablikið sem ljósmyndin fangar lýsir óréttlátu kerfi. Myndin er birtingarmynd ójafnvægis. Ísköld áminning um stöðu jafnréttis og mismununar á grundvelli kyns.

Myndin getur þess vegna auðveldlega haft stuðandi áhrif og kallað fram sterkar tilfinningar eftir því hvar við stöndum félagslega. Hún krefur okkur um afstöðu; hver okkar viðmið séu um heilbrigt samfélag? Hvaða gildum viljum við lifa eftir, eða fórna? Hversu mikilvæg eru jöfn tækifæri þegar kemur að æðstu embættum þjóðar? Sættum við okkur við að tilheyra því samfélagi sem þarna birtist, eða viljum við gera betur?

4. | Kona fæðist ekki forseti

„Hvernig dettur þér þetta í hug, barn?“ spurði móðir Vigdísar þegar sigurinn var í höfn. Var tilgangurinn ekki að stríða körlunum? Var virkilega nauðsynlegt að vinna líka? Að Vigga væri að taka við embætti forseta Íslands, fannst mömmu Sigríði fjarstæðukennt. Hún væri náttúrulega ekki karl. Hvorki lögfræðingur, guðfræðingur né læknir, hvað þá fornleifafræðingur.[7]

Höfðu þessar kynlegu athugasemdir áhrif á Vigdísi þar sem hún sat íhugul á forsetastóli, skreytt stórkrossi og keðju? Hvað var hún að vilja þarna upp á dekkið? Einstæð móðir, fráskilinn sjónvarpskennari, makalaus leikhússtjóri. Gæti hún orðið fjórði forseti lýðveldisins? Hana hafði eitt sinn langað að verða skipstjóri, en forseti… Ef til vill sótti Vigdís styrk í hugarheim franskrar fyrirmyndar; maður fæðist ekki kona, maður verður kona; kona fæðist ekki forseti, kona verður forseti.[8]

Á ljósmyndinni virðist Vigdís einbeitt gagnvart verkefninu, með hugann við handritið, auðmjúk. Hásætið er hennar en hún virðist viðkvæm, umkringd sviplausum andlitum karlanna. Sterk flóðljósin synda um rýmið og leitandi linsur – allra augu – beinast að nýja forsetanum.

Vigdís segir að hún hafi reynt að halda ró sinni: „Mér leið alls ekki vel þannig og einhvern veginn fór ég í gegnum þetta. En þegar ég hugsa til baka finnst mér að ég hafi gengið við hliðina á sjálfri mér. Undirmeðvitundin var á fullu; verð að passa mig að stíga ekki á kjólinn, verð að vanda mig að skrifa nafnið mitt, muna þetta, muna hitt… Ég var að gera eitthvað sem var á dagskrá, fylgja vandlega stýrðu prógrammi. En sjálf stóð ég til hliðar.“[9]

Vafalaust veitti það henni styrk að vita af skyldmennum og vinkonum, Ástríði Lynghagasól[10] og Svanhildi kosningastýru í hliðarsal Alþingis. Fjöldi fólks hafði líka safnast saman á Austurvelli, þrátt fyrir svolítinn rigningarúða. Beið spennt eftir að bera kvenforseta augum á miðjum kvennaáratugi Sameinuðu þjóðanna, heilum fimm árum eftir Kvennafríið. Kominn tími til.

5. |  Myndmál andstæðna

Myndin sýnir andstæðurnar í þingsalnum; hvítu, hlýju birtuna sem fylgir forsetaefninu og kalda, lokaða veröld hinnar einsleitu elítu. Hraunrauða ullarteppið er táknrænt fyrir undirliggjandi kraumandi ólguna. Bjarnleifur er staðsettur á áhorfendapöllunum og tekur myndina með gleiðlinsu, frá sjónarhorni húsflugu. Þannig fæst yfirsýn yfir uppstillingu þingsalarins og tilfinning fyrir sögulegri vigt og virðuleika athafnarinnar.

Greina má að augu flestra karlanna eru sem límd á túrkísbláum kjólnum, látlausri hárgreiðslunni og svörtu handtöskunni; útlitinu, fasinu og kyninu.[11] Vigdís hafði samið vandað ávarp og æft flutninginn en hvernig yrði orðum hennar, hugsun og hátterni tekið? Hún var ekki ein af strákunum. Margir þeirra höfðu beitt sér gegn henni í baráttunni. Efast um hæfi og viðrað eitraðar athugasemdir, hraunað yfir hana. Vigdís segist hafa verið bönkuð eins og teppi og fengið neyðarlegar spurningar á ferð um landið: „Körlunum fannst ég, þessi kvenframbjóðandi, vera að vaða inn á þeirra svið.“[12]

Einn gestanna virðist sérlega áhugasamur um athöfnina og teygir sig fram til þess að fylgjast með. Þar er mættur þingmaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson, sem 16 árum síðar átti eftir að sitja í hásætinu, í eigin innsetningarathöfn. Ólafur Ragnar fer sínar eigin leiðir í klæðaburði og hunsar kjólinn.

En hvaða strákur skrópaði? Hver átti auða sætið fyrir framan Ólaf, við hlið Geirs? Og hvar var Guðni þennan ágústdag, sem 36 árum síðar stóð í sömu sporum? Bjarnleifur hefur smellt af í þann mund sem forseti Hæstaréttar lýsir kjöri forseta og andartaki áður en Vigdís vinnur eið að stjórnarskránni með eigin undirritun.[13]

Að því búnu steig hún út á svalir þinghússins þar sem fjöldinn fagnaði vel og innilega. Á meðan var og innsetningarræðan undirbúin sem Vigdís flutti af einlægni og fagmennsku. Alla þessa þrekraun stóðst hún með miklum sóma og það geislaði af henni í sviðsljósinu. Vigga stal senunni.

6. | Táknmynd um gegnumbrot

Vigdís segist hafa áttað sig betur á því með tímanum hversu merkilegt skref það hafi verið að Íslendingar skyldu kjósa konu. Löng leið væri engu að síður frá Íslandi til himnaríkis. Þótt árangur hefði náðst í jafnréttismálum, væri enn mjög á brattann að sækja.[14]

„Erfiðleikarnir eru til þess að takast á við þá af hugprýði, raunsæi og sigurvissu. Hefðu fyrri tíma menn ekki staðið af sér erfiðleika líðandi stundar, stæðum við ekki hér í dag, frjáls til orðs og æðis,“ sagði Vigdís í innsetningarræðunni.[15] Hefði Vigdís ekki slegið í gegn þennan sögulega föstudag og staðið af sér þessa þolraun stæðu konur líklega ekki hér í dag, frjálsar til orðs og æðis.

En hvaða hefð var Vigdís að rjúfa, aðra en þá að vera fyrsti þjóðkjörni kvenforsetinn? Jú, hún rak fleyg í karlahópinn, ruddi brautina fyrir þær sem eftir komu. Ef horft er til sambærilegra athafna, er það gjarnan þröngur hópur sem skipar sínum manni til verka. Ekki í þetta sinn: „Ég var raunverulega frambjóðandi alþýðunnar, stelpan úr leikhúsinu sem kunni að kenna frönsku. […] Það gutlaði meira inni í þessu kvenhöfði en menn áttu von á…“[16]

Vigdís og ljósmyndin af embættistökunni, er að þessu leyti tákn, sterk táknmynd um samfélagslegt og femínískt gegnumbrot. Sönnun þess að konum séu allir vegir færir. Auðnist konu að taka við embætti forseta, geta konur rofið öll önnur glerþök. Og henni Viggu tókst svo sannarlega að gera töluvert meira en að stríða körlunum. Það innsiglaði hún með sextán ára farsælli setu á forsetastóli sem vinsæll og virtur þjóðhöfðingi, fyrirmynd kvenna – og karla – leiðarljós komandi kynslóða til langrar framtíðar.

Skjálftinn, straumhvörfin sem urðu með valdatöku Vigdísar fyrir tæpum 40 árum, er einstakur atburður, sögulegur áfangi í baráttu fyrir félagslegu réttlæti og kynjajafnrétti á alþjóðavísu. Ljósmynd Bjarnleifs Bjarnleifssonar sem hér hefur verið til umfjöllunar er afar markverð heimild um þetta mikilvæga gegnumbrot.

. . .

Heimildaskrá

Barthes, R. (2005). Retórík myndarinnar. Ragnheiður Ármannsdóttir (þýðandi), Gunnþórunn Guðmundsdóttir (höfundur formála). Ritið 1, 147-164. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Sótt 2. nóvember 2019 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000861103

Beauvoir, S. . (1997[1949]). The Second Sex. London: Vintage Books.

Borgarsögusafn. (e.d.). Ljósmyndasöfn blaða og tímarita. Sótt 7. október 2019 af http://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/ljosmyndasofn_blada_og_timarita.pdf

Harpa Þórsdóttir. (2014). Ertu tilbúin, frú forseti? Garðabær: Hönnunarsafn Íslands.

Páll Valsson. (2009). Vigdís – Kona verður forseti. Reykjavík: JPV útgáfa.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Vigdís Finnbogadóttir. (1980). Innsetningarræða. Reykjavík: Forseti Íslands. Sótt 1. október 2019 af https://www.forseti.is/media/1398/010880vfinnsetn.pdf

Vigdís Finnbogadóttir. (2017). Ég var forvitnilegt fyrirbæri. Í Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir (ritstjórar), Forystuþjóð – Áhrifaríkar frásagnir Íslendinga sem varpa ljósi á stöðu kynjanna árið 2017, bls. 12-17. Reykjavík: Drakó Films.

Vigdís Finnbogadóttir. (e.d.). Vigdís forseti. Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadótttur í erlendum tungumálum. Sótt 7. október 2019 af https://vigdis.is/is/forseti-islands-3/vigdis-forseti

. . .

Tílvísanir

[1] Borgarsögusafn, e.d.

[2] Harpa Þórsdóttir, 2014, bls. 78.

[3] Páll Valsson, 2009, bls. 9 og 319.

[4] Páll Valsson, 2009, bls. 319.

[5] Vigdís Finnbogadóttir, 2017, bls. 14.

[6] Vigdís Finnbogadóttir, e.d.

[7] Páll Valsson, 2009, bls. 316.

[8] Hér er lauslega vísað í hugmyndaheim og heimspeki franska hugsuðarins Simone de Beauvoir, sem birtist sem heróp til kvenna í bókinni Hinu kyninu árið 1949 (Beauvoir, 1997[1949]).

[9] Páll Valsson 2009, bls. 11-12.

[10] Lífsljósið og sigurinn gegn öðru kerfi; Vigdís vann tímamótasigur þegar henni tókst að beygja kerfið svo hún fengi heimild til að ættleiða barn, Ástríði Lynghagasól, draumadóttur og ljósið í lífi Vigdísar. Þrátt fyrir verklagsreglur og staðnað kerfi tókst henni að verða fyrsta einhleypa konan sem fékk slíka heimild (Páll Valsson, 2009, bls. 262-263).

[11] Vigdís segir að hún hafi tekið mjög meðvitaða ákvörðun um að klæðast ekki svörtum skautbúningi. Þetta gerði hún þrátt fyrir að eiga hátíðarbúning sem móðir hennar saumaði og færði henni að gjöf. Þennan mikilvæga dag langaði hana að klæðast einhverju alveg einstöku, björtu og fallegu. Kjóllinn skyldi sérhannaður af því tilefni þegar fyrsta konan tæki við embætti forseta. Hann átti að aðgreina Vigdísi frá svörtu kjólum karlanna, dökku veröldinni. Þetta var djörf en mikilvæg ákvörðun og ber samfélagsvitund Vigdísar gott vitni, enda skynjaði hún táknrænt, jafnvel sjónrænt, mikilvægi tímamótanna. Fyrir valinu varð túrkisblátt taísilki sem hún keypti í Stokkhólmi. Vigdís fékk Önnu Jónu Jónsdóttur, búningameistara í Iðnó, til að sauma eftir hönnun þeirra. Kjóllinn er einstakur og vakti mikla athygli. Vigdís notaði kjólinn aðeins í þetta eina skipti (Harpa Þórisdóttir, 2014, bls. 40 og bls. 68-70).

[12] Vigdís Finnbogadóttir, 2017, bls. 14.

[13] Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 10. grein: „Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.“

[14] Vigdís Finnbogadóttir, e.d.

[15] Vigdís Finnbogadóttir, 1980.

[16] Vigdís Finnbogadóttir, 2017, bls. 14.

. . .

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Kennarar Ingunn Ásdísardóttir og Sumarliði R. Ísleifsson
Nemandi Sigurður Kaiser