Háskóli Guðna

Guðni stundaði nám í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan með BA-gráðu árið 1991.

Eftir það lærði hann þýsku við Háskólann í Bonn í Þýskalandi. Þá nam hann rússnesku á árunum 1993-1994 við Háskóla Íslands.

Guðni útskrifaðist með meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ árið 1997. Hann nam sagnfræði á árunum 1998-1999 við Oxfordháskóla á Englandi og útskrifaðist þaðan árið 1999 með MSt-gráðu í sögu.

Árið 2004 lauk hann doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary, University of London. Doktorsritgerð Guðna fjallar um fiskveiðideilur á Norður-Atlantshafi og ber heitið Troubled Waters – Cod War, Fishing Disputes, and Britain’s Fight for the Freedom of the High Seas, 1948-1964.

Árið 2017 var hann sæmdur nafnbót heiðursdoktors við sama skóla. Af því tilefni flutti Guðni ávarp og minnti á mikilvægi menntunar og sérfræðiþekkingar. Ætíð yrði þó að hafa í huga takmörk þekkingar og nauðsyn þess að hlusta á ólík sjónarmið og nálganir á viðfangsefni.

Ljósmynd: Forseti.is

. . .

Heimildir

Forseti.is

Forseti.is: Heiðursdoktor

Vísindavefurinn: Hvaða rannsóknir hefur Guðni Th. Jóhannesson stundað?