Túrkísblái kjóllinn

Vigdís vekur jafnan athygli fyrir glæsilegan klæðnað og fallega framkomu. Við embættistökuna klæddist hún sérsaumuðum túrkísbláum kjóli, sem vakti mikla athygli.

Vigdís segir að hún hafi tekið mjög meðvitaða ákvörðun um að klæðast ekki svörtum skautbúningi við embættistökuna. Þetta gerði hún þrátt fyrir að eiga glæsilegan hátíðarbúning sem móðir hennar saumaði og færði henni að gjöf. Skautbúningur hefur sögulega verið notaður við slíkar athafnir, meðal annars af eiginkonum fyrrum forseta og varð síðar sá klæðnaður sem Vigdís klæddist oftast við hátíðlegar athafnir og notaði með táknrænum hætti.

En þennan fyrsta ágústdag árið 1980, langaði Vigdísi að klæðast einhverju alveg einstöku, björtu og afgerandi. Kjóllinn skyldi sérhannaður af því tilefni þegar fyrsta konan tæki við embætti forseta Íslands. Hann átti að aðgreina hana frá svörtu kjólfötum karlanna, dökku jakkafataveröldinni sem mætti Vigdísi í þingsalnum fyrsta vinnudaginn.

Þetta var djörf en mikilvæg ákvörðun og ber samfélagsvitund Vigdísar gott vitni, enda skynjaði hún táknrænt, jafnvel sjónrænt mikilvægi tímamótanna. Fyrir valinu varð túrkisblátt taísilki sem Vigdís keypti sérstaklega í Stokkhólmi. Hún fékk Önnu Jónu Jónsdóttur, búningameistara í Iðnó, til að sauma kjólinn og sníða eftir hönnun þeirra tveggja.

Kjóllinn er einstakur og vakti verðskuldaða athygli. Þetta er síður kjóll með kyrtilsniði, látlaus og einfaldur með víðar ermar. Hann kallast á við ýmsar sögulegar fyrirmyndir, jafnvel klæðnað álfadrottninga og fór henni einkar vel við embættistökuna. Vigdís notaði kjólinn aðeins í þetta eina skipti.

. . .

Heimildir

Harpa Þórsdóttir. (2014). Ertu tilbúin, frú forseti? Garðabær: Hönnunarsafn Íslands.

Hönnunarsafn Íslands: Ertu tilbúin, frú forseti?