Vigdís stelur senunni

Kjör og valdataka Vigdísar Finnbogadóttur var heimsviðburður. Ein af fáum stórfréttum sem þá höfðu ratað í heimspressuna frá litla Íslandi. Engin sérstök tíðindi lágu þó í loftinu af náttúrunnar hálfu þennan fyrsta ágústdag árið 1980. Í húsi við Aragötu var engu að síður handagangur í öskjunni. Þar var verið að undirbúa húsmóður fyrir kastljós heimsins.

Síðdegis steig Vigdís inn á stóra sviðið og tók við hlutverki sem engin kona hafði áður farið með; embætti forseta Íslands. En var hún tilbúin? Vigdís viðurkennir, að þvert á það sem margir haldi, reyni hún oftast að forðast sviðsljósið; „…ég er það feimin í eðli mínu. Mér líður ekki vel í viðtölum, finnst ég enn óörugg, og er alltaf hrædd um að standa mig ekki.“

Ljósmynd Bjarnleifs Bjarnleifssonar sem tekin er af pöllunum í þinghúsinu er magnað afturhvarf til fortíðar. Myndin rammar inn sviðsmynd sem blasti við Vigdísi á fyrsta vinnudeginum; karlavirkið í samfélaginu. Í þingsalnum voru aðeins fjórar konur af 150 gestum. Allir ráðherrar voru karlar, allir dómarar og sýslumenn.

Augnablikið sem ljósmyndin fangar lýsir þannig óréttlátu kerfi. Myndin er birtingarmynd ójafnvægis. Ísköld áminning um stöðu jafnréttis og mismununar á grundvelli kyns.

Myndin getur því haft stuðandi áhrif og kallað fram sterkar tilfinningar eftir því hvar við stöndum félagslega. Hún krefur okkur um afstöðu. Hvaða gildum viljum við lifa eftir, eða fórna? Sættum við okkur við að tilheyra því samfélagi sem þarna birtist?

„Hvernig dettur þér þetta í hug, barn?“ spurði móðir Vigdísar þegar sigurinn var í höfn. Henni fannst fjarstæðukennt að Vigga væri að taka við embætti forseta. Hún væri náttúrulega ekki karl. Hvorki lögfræðingur, guðfræðingur né læknir.

Höfðu þessar athugasemdir áhrif á Vigdísi þar sem hún sat íhugul á forsetastóli? Hvað var hún að vilja upp á dekk? Einstæð móðir, fráskilinn sjónvarpskennari, makalaus leikhússtjóri. Gæti hún orðið fjórði forseti lýðveldisins?

Vigdís reyndi að halda ró sinni: „Mér leið alls ekki vel og einhvern veginn fór ég í gegnum þetta. En þegar ég hugsa til baka finnst mér að ég hafi gengið við hliðina á sjálfri mér.“ Vafalaust veitti það henni styrk að vita af skyldmennum og vinkonum, Ástríði Lynghagasól og Svanhildi kosningastýru í hliðarsalnum. Fjöldi fólks hafði safnast saman á Austurvelli, þrátt fyrir rigningarúða

Myndin sýnir vel andstæðurnar sem birtast í þingsalnum. Bjarnleifur tekur myndina með gleiðlinsu og þannig fæst góð tilfinning fyrir virðuleika athafnarinnar. Greina má að augu karlanna eru sem límd á bláum kjólnum, látlausri hárgreiðslunni og svörtu handtöskunni; útlitinu, fasinu og kyninu. Vigdís hafði samið vandað ávarp og æft flutninginn en hvernig yrði orðum hennar, hugsun og hátterni tekið? Hún var ekki ein af strákunum.

Margir þeirra höfðu beitt sér gegn henni í baráttunni og viðrað eitraðar athugasemdir, hraunað yfir hana. Vigdís segist hafa verið bönkuð eins og teppi og fengið neyðarlegar spurningar á ferð um landið: „Körlunum fannst ég, þessi kvenframbjóðandi, vera að vaða inn á þeirra svið.“

Bjarnleifur hefur smellt af í þann mund sem forseti Hæstaréttar lýsir kjörinu og andartaki áður en Vigdís vinnur eið að stjórnarskránni með eigin undirritun. Að því búnu steig hún út á svalir þinghússins þar sem fjöldinn fagnaði. Alla þessa þrekraun stóðst hún með miklum sóma og það geislaði af henni í sviðsljósinu. Hún stal senunni.

Vigdís og ljósmyndin af embættistökunni, er að þessu leyti táknmynd um samfélagslegt og femínískt gegnumbrot. Sönnun þess að konum séu allir vegir færir. Það innsiglaði hún með sextán ára farsælli setu á forsetastóli sem vinsæll og virtur þjóðhöfðingi, fyrirmynd komandi kynslóða til framtíðar.

Skjálftinn, straumhvörfin sem urðu með valdatöku Vigdísar eru sögulegur áfangi í baráttu fyrir kynjajafnrétti á heimsvísu. Ljósmynd Bjarnleifs Bjarnleifssonar, sem hér hefur verið til umfjöllunar, er afar markverð heimild um þetta mikilvæga gegnumbrot.

. . .

Heimildir

Barthes, R. (2005). Retórík myndarinnar. Ragnheiður Ármannsdóttir (þýðandi), Gunnþórunn Guðmundsdóttir (höfundur formála). Ritið 1, 147-164. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Sótt 2. nóvember 2019 af http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000861103

Borgarsögusafn. (e.d.). Ljósmyndasöfn blaða og tímarita. Sótt 7. október 2019 af http://borgarsogusafn.is/sites/borgarsogusafn.is/files/atoms/files/ljosmyndasofn_blada_og_timarita.pdf

Harpa Þórsdóttir. (2014). Ertu tilbúin, frú forseti? Garðabær: Hönnunarsafn Íslands.

Páll Valsson. (2009). Vigdís – Kona verður forseti. Reykjavík: JPV útgáfa.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Sótt 20. október 2019 af https://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.htm

Vigdís Finnbogadóttir. (1980). Innsetningarræða. Reykjavík: Forseti Íslands. Sótt 1. október 2019 af https://www.forseti.is/media/1398/010880vfinnsetn.pdf

Vigdís Finnbogadóttir. (2017). Ég var forvitnilegt fyrirbæri. Í Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir (ritstjórar), Forystuþjóð – Áhrifaríkar frásagnir Íslendinga sem varpa ljósi á stöðu kynjanna árið 2017, bls. 12-17. Reykjavík: Drakó Films.

Vigdís Finnbogadóttir. (e.d.). Vigdís forseti. Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadótttur í erlendum tungumálum. Sótt 7. október 2019 af https://vigdis.is/is/forseti-islands-3/vigdis-forseti

. . .

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Kennarar Ingunn Ásdísardóttir og Sumarliði R. Ísleifsson
Nemandi Sigurður Kaiser