Guðni Th. Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands frá 2016

Guðni Th. Jóhannesson fæddist 26. júní 1968 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Margrét Thorlacius, kennari og blaðamaður og Jóhannes Sæmundsson, íþróttakennari og landsliðsþjálfari, sem lést árið 1983.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1987.

Hann stundaði nám í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi og framhaldsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands, Háskólann í Oxford og Queen Mary-háskólann í London, þaðan sem hann lauk doktorsprófi.

Guðni var lektor við Háskólann í Reykjavík og stundakennari við Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og University of London og kenndi sögu við Háskóla Íslands á árunum 2013-2016. Hann var lektor, dósent og svo prófessor við HÍ, áður en hann tók við embætti forseta Íslands árið 2016.

Guðni er kvæntur Elizu Reid, en þau kynntust á námsárunum við Oxford-háskóla á Englandi. Eliza er frá Kanada og lauk prófgráðum í nútímasögu í Oxford og í alþjóðasamskiptum við Torontoháskóla.

Guðni var formaður Sagnfræðingafélags Íslands og forseti Sögufélags. Hann var um tíma stjórnarformaður Þjóðskjalasafn Íslands og hefur gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum á sviði sagnfræði.

Hann hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um sögu þorskastríðanna, um forsetaembættið, um embættistíð Kristjáns Eldjárns forseta Íslands, ævisögu Gunnars Thoroddsens og bókina Óvinir ríkisins. Tvær þær síðastnefndu voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Að auki hefur Guðni skrifað fjölda fræðigreina um sögu Íslands og samtíð og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir fræðistörf sín. Árið 2017 var hann sæmdur nafnbót heiðursdoktors við Queen Mary University of London.

. . .

Heimildir

Forseti.is