Vefgreining

Inngangur

Í þessari greiningu er vefur Arctic Circle ráðstefnunnar, arcticcircle.org, rýndur. Ráðstefnan er haldin árlega í Hörpu í Reykjavík og er vettvangur umræðu um málefni norðurslóða og þær breytingar sem eru að verða á náttúru og veðurfari vegna hlýnunar jarðar – tækifæri og ógnanir. Til samanburðar er vefur Arctic Council, arctic-council.org, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og frumbyggjaþjóða um málefni Norðurskautsins.

Stuðst er við verkefnalýsingu, lesefni og fyrirlestra námskeiðsins, sem og tengdar heimildir, einna helst bækur vefsérfræðinganna Sigurjóns Ólafssonar, Steve Krug og Paul Boag. Fjallað er um vefinn út frá þessum heimildum og hann greindur með þennan fræðigrunn.

Internetið er mögnuð veröld, sýndarveruleiki. Hliðarheimur þar sem manneskjan og tilvist hennar birtist í öllu sínu veldi, upplögð eða uppgefin, upplogin eða uppfærð. Þar getum við tekið þátt í samspili og átt samskipti hvert við annað, sem og við fyrirtæki og stofnanir hvar og hvenær sem er. Lifað lífinu með stafrænum hætti eftir því sem hverjum og einum hentar, á okkar eigin forsendum. Án takmarkana. Eða hvað, er þetta svona einfalt?

Kerfisfræðingurinn Edward Snowden (2019), sem líklega hefur gert meira en margir í því að afhjúpa veruleikann og vafasamar hliðar internetsins, segir í nýrri bók að eðli veraldarvefsins hafi breyst í grundvallaratriðum. Það internet sem hann hafi fyrst kynnst, hafi allt í senn verið vinur og foreldri, landamæralaust samfélag jafnræðis og veröld án takmarkana. Netið hafi verið skapandi samstarfsvettvangur.

Á aðeins tveimur áratugum hafi þessi veröld tekið stakkaskiptum og breyst í samkeppnissvæði stórfyrirtækja, oft undir því yfirskini að um frjálsan vettvang sé að ræða. Þetta hafi verið upphafið að því sem Snowden kallar eftirlitskapítalisma (e. surrveillance capitalism) og endalok þess internets sem hann hafi alist upp við (bls. 4-5).

Hér á eftir verða þessar hugleiðingar Snowden hafðar bak við eyrað, þó þær tengist ekki beint vefnum sem til skoðunar er. Eðli internetsins og hvernig það hefur þróast, er þó mikilvægt í stóra samhenginu og allt sem þar birtist tekur mið af áhrifum og hlutverki þess í samtímanum.

. . .

1. | Vefstjórn

Starf og hlutverk vefstjóra og annarra sem sinna vefstjórn er meginþema námskeiðsins. Sigurjón Ólafsson (2015) telur starfið afar fjölbreytt. Góður vefstjóri þurfi að vera víðsýnn og hafa margskonar þekkingu og getu til að greina fjölþætt mál er snerta vefinn. Mikilvægt sé að greina hvenær þurfi að kalla til sérfræðing eða leiða saman teymi sérfræðinga til þess að leysa verkefni sem upp koma, enda fáir vefstjórar menntaðir sem slíkir.

Þó megi gera ákveðnar grunnkröfur til þeirra sem sinni starfi vefstjóra:

 • Búa yfir grunnþekkingu á HTML.
 • Þekkja nauðsynlega tækni, forrit og hugtök.
 • Hafa gott vald á íslensku (helst líka ensku).
 • Hafa innsýn í heim markaðsmála, virkni leitarvéla og samfélagsmiðla.
 • Hafa skilning á myndvinnslu og vefhönnun.
 • Vera áhugasamir um að kynnast notendum með notendaprófunum.
 • Vera liprir í mannlegum samskiptum.
 • Geta tekið ákvarðanir og eiga auðvelt með að segja nei.

Að mati Sigurjóns er sérstaklega mikilvægt að þekkja notendur vefsins sem um ræðir og afla raungagna um notendahegðun. Slíkar athuganir geti vissulega verið tímafrekar, en þeim tíma sé vel varið, enda leiði þær vefstjóra yfirleitt á réttar brautir. Hann segir að í kjölfar slíkra rannsókna verði vefstjóri „meðvitaður um það sem raunverulega skiptir máli til að vefurinn uppfylli væntingar notenda á öllum æviskeiðum hans“ (bls. 25).

Steve Krug (2014) telur mikilvægt að vefstjóri og teymi hans, hjálpi til við að einfalda allt á vefnum. Helst eigi að búa þannig um hnútana að notendur vefsins, þurfi varla að hugsa. Þegar vefur sé opnaður, sé augljóst hvert eigi að leita og hvar eigi að smella til þess að komast að efninu, innihaldinu. Vefurinn verði þannig auðskiljanlegur og útlit hans útskýri sig sjálft. Að vinna að þessum einfaldleika og auðskiljanleika, án þess að frekari hugsunar að hálfu notanda sé krafist, sé helsta verkefni vefstjóra.

Paul Boag (2017) er sannfærður um að bylting sé framundan í því að gera notendaupplifun á vefnum hærra undir höfði. Fyrirtæki muni standa og falla með því hvernig þau sinna og þjónusta viðskiptavini á netinu. Mikilvægt sé að þeir sem annist vefstjórn séu nægilega hugrakkir til þess að brjótast úr viðjum vanans og sannfæra yfirmenn og stjórnendur um að setja notendur í fyrsta sætið og að upplifun notenda ráði för.

Þetta geti þó reynst erfitt í fyrirtækjum þar sem stjórnendur séu íhaldsamir og ekki dugi að einn eða tveir starfsmenn vilji gera breytingar, heldur sé öflugast að sem flest starfsfólk séu beinir þátttakendur í slíkum breytingum. Jafnvel geti vefstjórar þurft að hefja byltingu innan fyrirtækis eða stofnunar til þess að gera notendaupplifun að sjálfsagðri menningu.

Sigurjón ræddi stöðu vefstjórans við Boag á IceWeb 2017 sem sagðist óttast að Íslendingar væru að missa af lestinni. Í Bretlandi hafi starf vefstjóra verið að þróast yfir í starf „yfirmanns rafrænnar þjónustu“ og meiri sérhæfing væri að eiga sér stað.

Sigurjón er sama sinnis og telur að nokkuð sé í land þar til starf vefstjórans verði orðið almennt innan fyrirtækja hérlendis og fáir aðilar hafi tekið skref í því að gera upplifun notenda hærra undir höfði, til dæmis með því að ráða sérfræðinga á sviði notendaupplifunar við hlið vefstjóra (Funksjon, 2017).

Krug segir að því miður sé fólk sem sérhæfi sig í notendaupplifun ekki nógu margt á heimsvísu. Um milljarður vefja sé virkur, auk álíka fjölda appa, en líklega séu um 10 þúsund sérfræðingar í notendaupplifun. Hann er þó sammála um að vefstjórar þyrftu að hafa aðgang sérstökum hönnuðum notendaupplifunar, en ekki fela forriturum eða grafískum hönnuðum slíka vinnu. Engu að síður sé það iðulega gert með misjöfnum árangri, því krafan um nútímalegan og gagnvirkan upplýsingaarkitektúr sé skýr (Krug, 2014).

Hjá Arctic Circle er enginn starfandi vefstjóri og enginn tilgreindur sem slíkur á vefnum. Þar eru nefndir til sögunnar forstjóri, framkvæmdastjóri, verkefnastjóri og samskiptastjóri, ásamt umsjónarmanni myndbanda. Hafa ber í huga að um er að ræða viðburð sem haldinn er einu sinni á ári og því lítil starfsemi að jafnaði yfir árið. Á vefnum eru stjórnarformaður og stjórnarmenn einnig tilgreindir, sem og fulltrúar í ráðgjafaráði.

Ekki reyndist því mögulegt að taka viðtal við vefstjóra í tengslum við þetta verkefni og tekur greiningin mið af því. Nokkrar spurningar voru sendar til Dagfinns Sveinbjörnssonar, forstjóra og Ásdísar Ólafsdóttur, fjölmiðlafulltrúa. Óskað var eftir hugleiðingum um vefinn og vefstefnu, markmið og áætlarnir. Svar barst lokst frá Takeshi Kaji, framkvæmdastjóra, þess efnis að þau hefðu ekki tók á að bregðast við spurningunum. Því miður er því óljóst hvort vefstefna hafi verið gerð og hver markmið með vefnum séu. Þó má gera ráð fyrir því að vefteymi hafi aðgang á meðan ráðstefnunni stendur og geti uppfært efni, til dæmis að umsjónarmaður myndbanda geti uppfært, þar sem mikil áhersla er á myndbönd á vefnum.

Sigurjón (2015) fjallar einmitt um þessa stöðu sem hann segir algenga; innan margra fyrirtækja hafi enginn titilinn vefstjóri, eða verkefnið sé hlutastarf sem viðkomandi starfsmaður hafi „lent í“ og sinni samhliða öðrum störfum. Í slíkum tilfellum „bætist við samviskubit yfir því að geta ekki sinnt starfinu almennilega“ (bls. 19).

Vefstefna er sá grunnur sem allir vefir þurfa að byggja á að mati Sigurjóns, vefstjórar eigi þó oft í vandræðum með vefstefnuna. Mikilvægi slíkrar stefnu sé vanmetið, því hún geti reynst „haldreipi þegar hagsmunaaðilar gerast of ágengir í að stjórna út frá eigin duttlungum“ (bls. 37). Hann segir að hluti vefstefnu sé efnisstefna, enda sé „afurðaefni lykillinn að velgengni á vefnum“ (bls. 39). Gott efni skapi traust.

. . .

2. | Vefhönnun

Kenningar Steve Krug um einfaldleikann koma upp í hugann þegar kemur að því að greina vef Arctic Circle. Krug minnir á að óþarfa áreiti á vefnum geti orðið til þess að notendur stoppi og fari að hugsa (sem þeir eigi ekki að gera). Gjarnan láti þeir hugann reika að einhverju allt öðru en því sem þeir eru að leita að. Þetta eigi við um allt sem birtist á vefnum, frá nöfnum á tenglum og staðsetningu hnappa, til skipulags, litavals og heildarútlits. Það sem geti orkað tvímælis eigi að hverfa, því hver einasta spurning, hversu einföld sem hún sé, geti orðið til þess að trufla notendur.

Krug segir að vefurinn sé ekki staður fyrir „púsluspil“ og það geti rýrt trúverðugleika fyrirtækis eða stofnunar að notandi upplifi að ekki hafi verið hugað að fyrirsjáanleika þegar vefurinn var hannaður. Þessu megi líkja við mikilvægi þess að bjóða viðskiptavinum uppá góða lýsingu í verslun, sjái þeir ekki vörurnar, helst um leið og þeir ganga inn, er ólíklegt að þeir vilji kaupa og minni líkur á því að þeir komi aftur (Krug, 2014).

Skipulag og undirbúningur áður en vefur fer í loftið skiptir öllu máli og góð vefstefna gerir gæfumuninn, segir Sigurjón (2015). Upplýsingaarkitektúr vefs (skipulag efnis, lýsing þess og þær leiðir sem notendur hafa til þess að komast að efni), þurfi að vanda. Sigurjón segir að skýr vísbending um vel hannaðan vef sé sú, að lykilverkefni hans séu augljós þegar vefurinn sé heimsóttur í fyrsta skipti. Notendur séu mættir til þess að leysa ákveðin verkefni og hönnun geti aðstoðað við að leysa þessi verkefni, fljótt og vel.

Þessi varnaðarorð sérfræðinganna eru mikilvæg í tilfelli Arctic Circle. Málefnið sem þar er til umfjöllunar er flókið og víðfemt. Þátttakendur sem þarf að kynna eða gefa pláss á vefnum eru fjölmargir (2000 gestir frá 60 löndum og um 600 fyrirlesarar árlega). Umfjöllunarefni eru því fjölbreytt og oft torskilin; í mörgum tilfellum er verið að kynna niðurstöður rannsókna sem erfitt er að gera skil með einföldum hætti. Of einföld framsetning getur unnið gegn markmiðum rannsakenda og því þarf að vanda til verka.

En eins og vefurinn er uppbyggður, er þetta ekki tilgangur hans (að kynna vísindarannsóknir) heldur er áherslan á að styrkja prófíl ráðstefnunnar, mynda stemmningu fyrir viðburðinum og tengja yfir á aðrar efnisveitur. Samstarfsaðilum er gert hátt undir höfði og lykilfyrirlesarar og tignir gestir fá mesta og besta plássið. Sjónum er beint að þáttum sem stjórnendur vilja koma á framfæri. Sem slíkur, virkar vefurinn í raun vel og er öflugur.

Því má segja að vef Arctic Circle sé haldið sérstaklega úti til þess að kynna og miðla hápunktum ráðstefnunnar, viðburðar sem haldinn er einu sinni á ári. Þegar vefurinn er greindur er mikilvægt að hafa þetta hlutverk í huga, þar sem ekki er um hefðbundinn upplýsingavef stofnunar eða fyrirtækis að ræða (þar sem notkunin dreifist yfir árið).

Í tilfelli Arctic Circle er um að ræða mjög mikla aukningu í aðdraganda ráðstefnunnar og í eina viku í október ár hvert. Vefurinn liggur í dróma þess á milli. Leiða má líkur að því að þetta letji stjórnendur til þess að sinna vefnum jafnt og þétt (láta hann mala), því vitað er að fáir heimsæki hann á milli ráðstefna. Vefurinn fær þannig lítið fóður yfir árið, en verður engu að síður að vera í öskrandi formi rétt fyrir viðburðinn.

Ráðstefnan hefur þó verið að færa út kvígarnar og stendur fyrir minni viðburðum (e. Forums) í samstarfi við borgir eða ríki og aðra samstarfsaðila um umfjöllunarefni er snerta Norðurskautið, að jafnaði tvisvar á ári.

Gera má ráð fyrir því að stjórnendur reyni að fylgjast með notkun vefsins með vefmælingum. Sigurjón (2015) fjallar um mikilvægi vefmælinga og vefgreiningartóla sem geri mikið gagn í verkfærakistu vefstjóra. Ekki er vitað hvort stjórnendur Arctic Circle nýti sér Google Analytics, en líklegt má telja að þeir fylgist með traffík inn á vefinn. Sigurjón segir að þó slík tæki geti verið mikill tímaþjófur, dugi „10 mínútur á dag með morgunkaffinu eða 3-4 klukkustundir á mánuði til að standa vaktina“ (bls. 45).

Steve Krug (2014) segir að notendur þjóti inn á vefi og út af þeim aftur. Ef vefhönnuðir vilji fanga athygli þeirra þurfi vefir að vera aðgengilegir og auðskiljanlegir. Hann lýsir því hvernig notendur skanni efnið, enda séu notendur alltaf að flýta sér. Þeir geti einfaldlega ekki gefið sér tíma til að lesa og melta mikið magn af efni. Þegar vefur Arctic Circle er rýndur er gott að miða við sex áhrifaþætti varðandi uppbyggingu og skipulag forsíðunnar og undirsíðna. Krug segir mikilvægt að:

 • Nýta hefðir sem þegar hafa skapast í vefheiminum.
 • Búa til öfluga og sýnilega virðingarröð, meðal annars með því að forgangsraða í útliti hnappa og tengla og velja vel liti og leturgerðir.
 • Afmarka svæði, til dæmis með skýrum römmum eða myndum.
 • Gera það augljóst hvar skuli smella til þess að nálgast innihald.
 • Eyða truflunum og öllum óþarfa.
 • Sníða efni til þannig að textar séu skannanlegir.

Rannsóknir Jakob Nielsen (1997) á því hvernig notendur skoði vefi í raun, koma einnig að góðum notum. Hann segir að 79% notenda skanni vefi sem þeir heimsæki og aðeins 16% lesi efni sem er á vefnum. Því sé mikilvægt að vefhönnuðir vinni texta sem sé auðskannanlegur og með lykilorðum. Einnig að textinn sé brotinn upp með merkingarbærum fyrirsögnum og listum. Sem fæst orð séu notuð og hugmyndin um öfugan píramída höfð til hliðsjónar (byrjað á niðurstöðu en ítarefni neðar).

Einnig er vert að hafa aðra rannsókn Nielsen (2006) í huga, þar sem í ljós kemur að notendur skanna texta á skjá í nokkurskonar F-mynstri; í upphafi texta lesi þeir heilar línur og setningar frá vinstri til hægri, aðeins neðar hálfar línur frá vistri að miðju og enn neðar fáein orð frekar hratt þangað til þeir lesa stök orð og flest í upphafi línu vinstra megin.

Sigurjón (2015) segir að fáir efist um þessar niðurstöður; notendur lesi vefi öðruvísi en bækur, þeir séu óþolinmóðir og í tímaþröng. „Þess vegna er mikilvægt að hafa texta ekki aðeins knappan og læsilegan heldur þarf að huga mjög vel að tenglum og vanda valið á heitum þeirra“ (bls. 60). Í umfjölluninni hér á eftir eru þessar hugleiðingar og kenningar sérfræðinganna hafðar til hliðsjónar.

. . .

3. | Forsíða arcticcircle.org

Forsíðan er öflug og virkar vel (bæði í desktop-útgáfu og mobile-útgáfu). Uppbyggingin er einföld, ein stór mynd frá ráðstefnunni mætir augunum, fletir eru fáir en afgerandi með skýrum uppbrotum. Hnappar eru skýrir og litanotkun í samræmi við þema; ljósblátt, dökkblátt og hvítt (sömu litir og notaðir eru í Arctic Circle-kennimerkinu/lógóinu). Í vinstra horninu er kennimerkið (hefðbundin staðsetning). Vefurinn er skalanlegur og lagar sig að snjalltækjum og mismunandi skjástærðum (e. responsive).

Í hægra horninu er menu-íkon (einnig hefðbundin staðsetning). Þarna leynist þó galli, því menu-íkonið hverfur eftir því hvernig vefurinn skalast í desktop; er úti í 100% en birtist ef farið er yfir 150% og aftur ef vefurinn er dreginn í hálfan skjáinn (50%). Leiðarkerfi, eitt af tveimur, eða þremur, sem er í hausnum (e. header) hægra megin, hverfur líka við skölunina.

Menu-íkonið er inni í mobile-útgáfunni og er það eina leiðarkerfið í mobile. Hugsanlega var þessi ákvörðun tekin til þess að reyna að auka aðgengi og virkni í mobile, en ef horft er til ráðstefnugesta, þá eru þeir margir með desktop-tölvur og því mætti ætla að hvatinn til að vera með vefinn í góðu formi í desktop, sé einnig til staðar.

Gestir eru þó vissulega í síauknum mæli með snjallsíma og því skiljanlegt að fókusinn sé að færast yfir á betri virkni í snjalltækjum. Sigurjón (2015) telur málið í raun útrætt og undrun veki ef nýir vefir lagi sig ekki að öllum skjástærðum. Það sé „í besta falli mjög vond ráðgjöf að segja fyrirtækjum að þau þurfi ekki sérstaklega að gera allan vefinn aðgengilegan í snjalltækjum, þ.e. símum og spjaldtölvum“ (bls. 97).

Annað leiðakerfi sem er með tveimur listum undir Assemblies og Forums (þar sem stærstur hluti innihalds leynist á undirsíðum), hverfur samhliða þegar menu-íkonið birtist. Önnur svæði á síðunni riðlast. Nú getur verið að þetta sé óhjákvæmilegur hluti af sköluninni en þarna er mikilvægum fídusum fórnað í desktop til þess að vefurinn virki betur í mobile.

Þetta er einmitt verkefnið sem Sigurjón fjallar um; að leitast við að hanna vefi þannig að þeir virki í snjalltækjum og símum, en einnig í fartölvum og borðtölvum. Það að vefur sé skalanlegur og lagi sig að snjalltækjum er því vissulega nauðsynlegt í nútímaumhverfi, en má þó ekki verða til þess að lykil-fídusar, líkt og main-menu og leiðarkerfi, hverfi samhliða. Því má segja að galli sé á sköluninni, en hvort það sé ásættanlegur fórnarkostnaður til þess að vefurinn virki betur í mobile, skal ósagt látið.

Við nánari skoðun er ýmislegt sem betur mætti fara á forsíðunni. Annað dæmi um þar sem útliti í desktop er fórnað, eru stóru ljósmyndirnar. Alls sex myndir birtast af handahófi þegar forsíðan opnast, sumar henta betur til þess en aðrar og þarna mættu stjórnendur skoða forsíðuna í mismunandi vöfrum og skjástærðum til þess að átta sig á takmörkunum þess að nota slíkar myndir. Sem dæmi virkar myndin af Viktoríu Svíaprinsessu ekki vel (þar sem skurðurinn er við höku). Í mobile-útgáfunni virkar hún þó vel.

Mynd af John Kerry, öldungardeildarþingmanni, virkar betur og fær að njóta sín þar sem skurðurinn er ekki of þröngur. Andlit Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands, birtist hálft og skurðurinn af Katrínu forsætisráðherra og Ólafi Ragnari kemur ekki vel út í desktop. Sú mynd kemur hinsvegar betur út í mobile. Myndir af Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands og Lisa Murkowski, öldungardeildarþingkonu, koma vel út í báðum útgáfum. Að velja réttu myndinar og skera er því vandaverk.

Óvenjulegt er að nánast allt veftréð og undirsíður (menu-items), birtist þegar smellt er á menu-íkonið. Ekki eingöngu milliforsíður, líkt og hefðbundið er. Þetta er ansi langur listi, sem nær langt niður eftir allri forsíðunni (líklega einfalt að laga). Birtist líka í mobile og er ekki gott.

Í hausnum hægra megin er leiðarkerfi með tenglum á samfélagsmiðla; Twitter, Facebook og YouTube, sem og tenglum á undirsíður; Board, Secretariat og About. Þetta virkar ágætlega útlitslega séð, en mætti gera betur með því að nýta íkon samfélagsmiðla (sem nú eru orðin það þekkt að nöfnin eru óþörf), enda eru þau nýtt sem slík á öðrum stöðum á vefnum. Þetta er því spurning um að samræma útlitið.

Engin leit er á vefnum, hvorki á hefðbundnum stað (efst í hægra horni forsíðu), né annars staðar á vefnum. Hvort það sé meðvituð ákvörðun skal ósagt látið. Í raun er ekki mikið af innihaldi á vefnum sjálfum, þó töluvert sé um myndir og myndbönd, mikið af kennimerkjum, sem og tengla á aðrar síður (samfélagsmiðla og samstarfsaðila). Möguleiki á leit myndi þó upplýsa notendur fljótt um þær undirsíður sem þó eru með texta og vekja athygli á hápunktum fyrri ráðstefna, sem vel er haldið utanum.

Meginefni og fókus forsíðunnar eru einmitt þrír tenglar eða hnappar, staðsettir á besta stað. Útlit þeirra og litaval er skýrt og svæðið afmarkað, augljóst er hvar eigi að smella. Tveir vísa á aðrar efnisveitur;

Sérstaka athygli vekur að dagskráin er ekki á forsíðunni, né aðgengileg á undirsíðum (þar sem hægt væri að gera meira úr henni og tengja efni og viðburði með myndrænum hætti). Þess í stað eru upplýsingar um dagskrá í pdf-skjali sem inniheldur bæklinginn (sem er vandaður og vel hannaður og dreift í prentútgáfu á ráðstefnunni).

Pdf-skjöl geta þó reynst óaðgengileg fyrir þá notendur sem nýta skjálesara og því er verra að dagskráin sé ekki aðgengileg á undirsíðu á vefnum. Það kunna svo að vera smávægileg mistök, en Videostengillinn vísar á tiltekið myndband, en ekki á YouTube-svæði Arctic Circle (sem líklega er tilgangur hnappsins og hefðbundnari lausn).

Þessi einfalda uppsetning og þeir skýru hnappar til að smella á, er vissulega í anda Krug; að einfalda og fjarlægja óþarfa. Þó finnst manni ólíklegt að kenningar Krug hafi verið innblásturinn, því efnið er afar takmarkað þó mikill fjársjóður leynist í myndböndunum.

Nefna má að listi yfir Topics er birtur á undirsíðu, sem listi yfir almenn umræðuefni, en þó ekki í tengslum við tiltekin dagskráratriði.

Vera kann að þessi óformlega vefstefna dugi fyrir ráðstefnuna og þjóni notendum, enda er dagskráin að hluta skipulögð af samstarfsaðilum eða Partners (bottom-up fyrirkomulag), sem kann að skýra skipulag vefsins.

En þetta „innihaldsleysi“ er þrátt fyrir auglýsingu í dagskrárbæklingi þar sem fram kemur að á vefnum sé hægt að nálgast; Speaker Bios & Photos og Breakout Session Synopses. Hvorugt er þó á vefnum. Vera kann að áætlanir hafi verið uppi um að gera þessu efni skil en tími ekki gefist. Eða að ætlunin hafi verið að hvetja þátttakendur til að sækja Arctic Circle-appið.

Enda var töluverð áhersla lögð á að gestir sæktu appið. Vísað er á það á forsíðunni með skýrum hætti. Ekki er um að ræða sérhannað app, heldur er appið byggt á grunni Guidebook.

Þegar appið er skoðað kemur í ljós að talsvert vantar uppá að vandað hafi verið til verka. Sem dæmi vantar myndir af fyrirlesurum og ljósmyndir eru engar undir Photos, þrátt fyrir auglýsingu í dagskrárbæklingi.

Í appinu er þó dagskráin aðgengileg og þar birtast vandaðar upplýsingar um einstaka viðburði og fyrirlesara, líkt og lofað er í bæklingi. Þarna er einnig hægt að raða saman eigin dagskrá og skoða kort af Hörpu. Segja má að aftur sé verið að færa þungamiðjuna yfir í mobile, en hvort það er í samræmi við óskir þátttakenda er óvíst.

Ekki hefur verið lögð mikil hönnunarvinna í útlit appsins, heldur gengið inn í format sem var til staðar. Þema Arctic Circle er því ekki ráðandi í appinu eins og á vefnum. Það sem þó virkar vel í appinu er dagskráin, auk þess sem appið sendir skilaboð um að viðburður sé að hefjast og í hvaða fundarsal (sem er gagnlegt því skipulag ráðstefnunnar er flókið, mikið af viðburðum er í boði og salirnir út um alla Hörpu).

Undir app-tenglinum, eru íkon Facebook og Twitter, en þegar smellt er á þau er forsíðunni ekki deilt sem slíkri, heldur er búið að velja myndband til þess að deila á Facebook og myndbandi og texta um appið í tilfelli Twitter.

Þetta gæti gert það að verkum að notendum finnist ekki öruggt að deila efni af síðunni (sérstaklega ef búið er að velja tiltekið efni þegar þeir smella á íkonin). Með því er í raun gerð tilraun til að ritstýra því sem notendur deila og stjórnendum finnst skipta mestu, í stað þess að leyfa notendum að deila því efni sem þeim finnst áhugavert á síðunni.

Knappur texti um ráðstefnuna og lykilræðumenn birtist næst á forsíðunni. Þarna er stiklað á stóru um hvað ráðstefnan snýst, en þó með þeim hætti sem Krug yrði ánægður með; lítið er um óþarfa og textinn fljótskannaður ef notandi hefur lítinn tíma (sem hann hefur alla jafna). Þó mætti líklega bæta þetta örlítið með lykilorðum og lista í anda Krug.

Neðar á forsíðunni er ógrynni tengla á samstarfs- og styrktaraðila. Listinn er vissulega merkilegur, enda eru þar samankomnir afar öflugir aðilar sem taka þátt í starfseminni og styrkja vettvanginn sem Arctic Circle er. Þó má efast um ágæti þeirrar uppsetningar sem valin hefur verið, en eflaust er birting merkjanna hluti af samkomulagi við viðkomandi aðila.

Þetta er þó ekki áhugavert efni á forsíðu og maður hefur efasemdir um að slík upptalning skili árangri fyrir viðkomandi aðila. Erfitt er að leggja til úrbætur án þess að vita nánar um forsendurnar, en mögulega hefði verið betra að draga fram þrjá til fjóra aðila hverju sinni, gera þeim skil með myndbandi eða fréttum af starfsemi þeirra og rótera svo aðilum.

Auk þess sem það tekur tíma að birta merkin og vefurinn virkar hægur þegar þessi hluti hans er skoðaður. Þetta gerist við fyrsta innlit og virkar nánast eins og um galla sé að ræða. Þessi framsetning er eins í desktop og mobile, kemur ekki mjög vel út og er óhefðbundin.

Þegar búið er að skrolla framhjá merkjunum birtist loks fótur (e. footer) forsíðunnar. Þar er Contact Us (tengill á sömu síðu og heitir Secreteriat í hausnum), boðið er uppá skráningu á Mailchimp-póstlista og svo er tengill á Arctic Today, vefmiðil sem ekki er á vegum ráðstefnunnar en fjallar um sambærileg málefni. Neðst í hægra horni eru tenglar á Twitter og Facebook-svæði Arctic Circle, sem er nokkuð hefðbundið (Arctic Circle, e.d.).

. . .

4. | Forsíða arctic-council.org

Forsíða vefs Arctic Council, arctic-council.org, var skoðuð til samanburðar út frá sex atriðum Krug um skipulag og uppsetningu vefja. Litanotkun er ekki eins skýr eða afgerandi, of margir litir eru í notkun á vefnum og mismunandi eftir svæðum og undirsíðum hvaða litir eru ráðandi. Sú ljósmynd sem fyrst mætir augunum er af yfirborði jökuls en er ansi dauf.

Flettirammi með sjö bakgrunnum og mismunandi efni þekur meginsvæði forsíðunnar, en myndirnar flettast ekki sjálfkrafa (sem kunna að vera mistök) og óskýrt hvernig á að fletta (með litlum hvítum hnöppum neðst sem hverfa í jökulinn). Þetta gerir það að verkum að efnið sem verið er að kynna fer líklega framhjá mörgum sem skoða forsíðuna. Í mobile hverfa myndirnar, þannig að aðeins er um texta á brúnum grunni að ræða, en álíka erfitt að fletta. Þarna vantar örvar til hliðanna (líkt og hefðbundið er).

Hefðir eru virtar að mestu leyti. Menu-íkonið er ofarlega til hægri (og þarna helst það inni bæði í desktop og mobile). Leiðarkerfið í menu er einfalt og skýrt og aðeins með milliforsíðum (ekki öllu veftrénu). Annað leiðarkerfi er fyrir miðri forsíðunni með skýrum flokkum, en heldur margir liðir eru undir liðnum About Us. Þar undir birtist enn eitt leiðakerfið með mörgum tenglum á undirsíður.

Aðgengi að upplýsingum er þó gott og leit er á hefðbundnum stað, efst í hægra horninu. Mikið innihald er á síðunni og nýjustu fréttir eru birtar undir flettirammanum. Segja má að hér sé um hefðbundnari og eldri vef að ræða, enda er hann ekki eins öflugur í mobile. Vefurinn er einnig skjalageymsla, því á undirsíðum er mikið efni; skjöl, fundargerðir og fréttasafn, sem eflaust er áhugavert en hefur takmarkað gildi (nema fyrir þá sem lifa og hrærast í þessum heimi og starfa með ráðinu).

Tiltekt er fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar forsíðan er skoðuð með Krug bakvið eyrað. Talsvert er af tengingum og embed frá öðrum miðlum, til dæmis eru myndaseríur frá Flickr, tvít frá Twitter og statusar frá Facebook. Þetta efni virkar ágætlega í desktop en birtist með mismunandi hætti við skölun. Líklega má segja að þarna séu börn síns tíma (þó þau séu ekki nema nokkurra ára gömul) sem voru vinsæl og mikið notuð en eru það ekki lengur. Fóturinn er hefðbundinn með póstlistaskráningu og netfangi, en engu símanúmeri. Neðst er viðburðayfirlit sem er óhefðbunin staðsetning (Arctic-council, e.d.).

. . .

5. | Framsetning

Framsetning efnis á vef Arctic Circle er með ýmsum hætti og mismunandi útliti eftir því hvaða undirsíður eiga í hlut. Segja má að höfuðáherslan sé á hið sjónræna, því textar eru víðast knappir. Þó er vert að nefna, líkt og áður hefur komið fram, að formið og útlitið þjónar vel ráðstefnunni, enda ekki um hefðbundinn upplýsingavef stofnunar né söluvef að ræða.

Rík áhersla er á undirsíðum á að birta myndbönd (tenglar á efnisveitu) og ljósmyndir af hápunktum fyrri ráðstefna. Einnig er mögulegt að nálgast dagskrá, upplýsingar um erindi og fyrirlesara og myndir af þeim. Þetta efni er geymt undir Assemblies og viðkomandi ártali.

Talsverð vinna hefur því verið lögð í að halda utan um þetta mikla efni frá fyrri ráðstefnum. Allmargir tenglar myndbandanna virka þó ekki. Þarna er engu að síður margt vel gert og auðvelt að nálgast upplýsingar, að því gefnu að maður viti ártal, nöfn fyrirlesara eða tímasetningar erinda, því eins og fram hefur komið er enginn almenn leit á síðunni.

Á ráðstefnunni árið 2019 voru þessir þættir færðir yfir í appið og gerðir aðgengilegir þar, en líklega er markmiðið að færa þá aftur undir þessa síðu til þess að rýma fyrir næstu ráðstefnu í appinu. Betur færi þó á því að slíkar upplýsingar væru í desktop-útgáfunni á ráðstefnunni.

Á vefnum eru engar fréttir enda vefurinn ekki byggður upp sem fréttaveita. Nokkuð auðvelt væri þó að bæta þeim möguleika við og hafa nokkrar róterandi fréttir á forsíðunni, sem vísuðu í stærra fréttasafn á undirsíðum. Slíkt fyrirkomulag gæfi stjórnendum jafnvel betri möguleika á að leggja áherslu á tiltekna þætti og gera hápunktum enn betri skil.

Hægt er að fara margar leiðir við hönnun útlits en í heildina hefur tekist vel til, líkt og áður hefur komið fram. Gott er að hafa hugleiðingar Krug bak við eyrað þegar framsetning efnis er endurhugsuð og oft þarf ekki mikið til, brjóta upp með listum, litum eða lykilorðum. Dæmi um undirsíðu þar sem mætti bæta við myndum, þétta texta en halda sömu litasamsetningu, er undirsíða með upplýsingum um stjórn ráðstefnunnar, Honorary Board.

. . .

6. | Notendaupplifun

Að mati þeirra sérfræðinga sem vísað er til í þessari greiningu, eru notendaprófanir (þar sem raunveruleg upplifun notenda er rannsökuð) nauðsynleg og öflugt tæki til þess að greina virkni vefja og hvað betur megi fara við skipulag og útlit. Slíkar rannsóknir þurfa ekki að kosta mikið en geta skilað sér margfalt til baka og kallað fram betri og einfaldari vefi sem notendur vilja heimsækja aftur (Funksjon, 2012).

Krug (2014) telur að vefstjórar og þróunarteymi þeirra þurfi ekki að verja meira en einum morgni á mánuði í slíkar prófanir. Hugmyndin sé einföld: „Ef þú vilt vita hvort vefurinn þinn sé nægilega einfaldur í notkun, horfðu þá á nokkra notendur prófa hann og skráðu hvar þeir lenda í vandræðum. Lagaðu það svo og prófaðu aftur“ (bls. 135).

Sigurjón (2015) segir að með notendaprófunum komist vefstjóri og þar með stjórnendur fyrirtækis eða stofnunar í gott samband við notendur og viðskiptavini. Ein leið til þess að tryggja að hagsmunir notenda verði ávallt leiðarljós við vefhönnun, sé að setja slíkt ákvæði í vefstefnu fyrirtækisins; „Ef þú ert með fyrirtæki þá myndi ég mæla með að setja ákvæði í vefstefnuna þar sem fyrirtækið þitt gengst við þessari speki“ (bls. 119).

Gerð var notendaprófun í samræmi við verkefnalýsingu. Fjórir nærstaddir en ólíkir aðilar voru fengnir til að skoða vefinn og leysa tiltekin verkefni. Prófanirnar voru teknar upp og hér að neðan má horfa á myndböndin. Spurningar sem þátttakendur fengu voru eftirfarandi:

 1. Hver er stjórnarformaður Arctic Circle?
 2. Hver hlaut verðlaun Arctic Circle árið 2016?
 3. Hvert er netfang forstjóra Arctic Circle?
 4. Hvaða ár var fyrsta ráðstefnan haldin í Hörpu?
 5. Hvert er heimilisfang Arctic Circle?
 6. Hvaða daga verður ráðstefnan haldin árið 2020?

Notandi A – Kona á miðjum aldri, nokkuð vön texta- og tölvuvinnu, var tæpar 4 mínútur að leysa verkefnin. Hún gaf vefnum ágæta umsögn þó vont væri að engin leit væri á forsíðunni og auðvelt væri að týnast á vefnum.

Notandi B – Eldri kona, frekar óvön tölvum, var rúmar 8 mínútur að leysa verkefnin með smávegis aðstoð. Henni þótti efni vefsins áhugavert og vefurinn myndrænn en nokkuð flókinn og ókostur að hann væri á ensku. Hún var ekki viss um hvort hún hætti sér aftur inn á internetið.

Notandi C – Ungur karl var um tvær og hálfa mínútu að leysa verkefnin. Honum fannst vefurinn flottur en óþarflega flókinn miðað við einfalt efni.

Notandi D – Karl á miðjum aldri var um 2 mínútur og 45 sekúndur að leysa verkefnin. Honum fannst vefurinn ágætur en þó ekki auðvelt að rata þar sem leiðarkerfin væru nokkur, menu vantaði og engin leit væri á vefnum.

Útfrá þessum niðurstöðum mætti gera nokkrar tillögur að úrbótum og lagfæringum. Verkefnin sem notendur fengu voru frekar einföld, en þeir virtust engu að síður nota ólíkar aðferðir við að leysa þau. Sumir týndust tímabundið á vefnum við leit að einföldum upplýsingum. Öll gerðu þau athugasemdir um að leitarmöguleika vanti og yngra fólkið kvartaði einna helst yfir því. Leiðarkerfi vefsins virðist líka vefjast fyrir notendum, því þau eru nokkur, auk þess sem menu-íkonið birtist ekki. Þó má segja að öllum hafi tekist að leysa verkefnin fljótt og vel, þó þeir sem hafi meiri reynslu af vef- og tölvuvinnu væru mun fljótari að átta sig á skipulagi vefsins.

Krug (2014) segir að mikilvægt sé að flokka breytingar sem gera þurfi á vef í kjölfar slíkra prófana. Sumar séu augljósar og þær taki enga stund að laga, en aðrar geti tekið tíma að útfæra og fínpússa. Varast beri að bæta við nýjum svæðum eða hnöppum og alls ekki nánari útskýringum eða leiðbeiningum. Oft geti verið nóg að fjarlægja eitthvað frekar en að bæta við. Hönnun útlits og skipulags vefja sé jafnvægislist og stundum geti lítil breyting á einum stað orðið til þess að riðla hlutum á öðrum stað.

. . .

7. | Aðgengi

Jafnræði og óhindrað aðgengi að upplýsingum og opinberri þjónustu ætti að vera forgangsmál ef við viljum raunverulega að samfélagið virki fyrir alla. Þetta verður sífellt mikilvægara í stafrænum heimi, svo þeir sem eiga auðvelt með að ferðast um á netinu hafi ekki sjálfkrafa forskot á hina sem þurfa aðstoð. Helst ættu að vera lög sem banna mismunun og skylda aðila sem halda úti þjónustuvefjum að gera þá aðgengilega, eins og kostur er.

Sigurjón (2015) segir að okkur beri „siðferðileg skylda til að taka tillit til aðgengis á vefnum“ en jafnframt að sterk fjárhagsleg rök búi að baki, því þeir sem eigi við fötlun að stríða, verji umtalsverðum fjárhæðum á netinu. Auk þess gagnist bætt aðgengi öllum og auki lífsgæði fjölda fólks. Talið sé að um 20% einstaklinga í vestrænum samfélögum glími við fötlun, vefhönnuðum beri því skylda til að mæta þörfum þessa stóra hóps.

Boag (2010) tekur undir þetta og hann segir að kostnaður eða tímapressa sé gjarnan notuð sem afsökun fyrir því að bæta ekki aðgengi. Þetta sé fölsk röksemdafærsla, því í fyrsta lagi sé kostnaðurinn ekki meiri við slíkar lagfæringar, enda gagnist þær öllum og tíminn sé alltaf afstæður. Frekar sé mikilvægt að vera með nýjustu uppfærslu af þeirri tækni; vöfrum, viðbótum (e. plugin) og forritum, sem verið sé að nota.

Í öðru lagi skili gott aðgengi gjarnan auknum tekjum því fatlaðir eða þeir sem komnir séu af léttasta skeiði verji umtalsverðum fjármunum á netinu, þeir versli gjarnan heima í stofu og fái vörurnar sendar heim. Auk þess eigi þeir rétt á sömu þjónustu og upplýsingum frá hinu opinbera og því sé ekki um neitt annað að ræða en að þjónusta á netinu sé öllum aðgengileg.

Gerð var prófun á aðgengisvillum og hvernig vefurinn virkar fyrir sjónskerta og blinda með því að renna forsíðunni í gegnum Wave – Web Acessability Evaluation Tool. Niðurstöður eru að margar villur koma í ljós sem gætu truflað skjálesara og alt-lýsingu vantar víða. Yfirfara þyrfti vefinn í samræmi við WCAG 2.1 staðalinn og huga að því sem þarf að vera í lagi til þess að notendur stoðbúnaðar geti ferðast hindrunarlítið um vefinn. Einnig mætti bæta við vefþulu og hnappi sem kveikir á henni á forsíðunni.

Setja þarf inn og yfirfara alt-lýsingu (e. alternative text) á raunverulegum myndum og merkjum með tenglum til útskýringar fyrir notendur. Tóm alt-gildi (alt=””) þarf að setja á myndir sem skjálesarar eiga að hlaupa yfir (e. spacer image). Yfir 200 slíkar villur opinberast við prófunina. Tungumál vefsins kemur ekki fram við prófunina en það getur komið sér vel fyrir þá sem nota skjálesara og mætti laga með því að nota <html lang=”en”> svo skjálesarar velji rétt, þar sem enska er tungumál vefsins.

Þá koma fram nokkrar villur með tómar fyrirsagnir (e. heading). Þetta þarf að laga sem og röð fyrirsagna (<h1>, <h2>) því sumir notendur nýta fyrirsagnirnar og lyklaborðið til þess að rata. Allmargir listar eru óraðaðir (e. unordered) og það getur valdið ruglingi. Þá þarf víða að huga að HTML-mörkun og auka skerpu svo texti sjáist vel og svæði séu betur afmörkuð fyrir þá notendur sem farnir eru að tapa sjón. Einnig þarf að leiðrétta og yfirfara tengla svo þeir vísi á rétt efni og valdi ekki ruglingi (Wave, e.d.).

Ekkert af þessu er óyfirstíganlegt og flest auðvelt að laga. Sérfræðingur ætti að geta lagað þetta mestallt með lítilli fyrirhöfn. Þó væri gagnlegt að fá einstakling sem notar skjálesara reglulega til þess að prófa vefinn, líkt og stjórnvöld mæla með í Vefhandbókinni og gildir til dæmis 60% í úttektinni Hvað er spunnið í opinbera vefi (Stjórnarráð Íslands, e.d., 2017).

. . .

8. | Hraði

Gerð var hraðamæling með Lighthouse og sjá má niðurstöður á skjáskotum hér að neðan. Vefurinn rétt slagar í meðaltal og skilar 54% heildarvirkni. Hraði undir 44% er slæm niðurstaða og meðlhraði er á milli 45% og 74%. Aðeins um 5% vefja ná hraða frá 90% upp í 100%. Bæta má þessa virkni með ýmsum hætti og gera lagfæringar á því hvernig vefurinn og ólík svæði og mismunandi fídusar hlaðast inn þegar vefurinn er opnaður og forsíða og undirsíður hans skoðaðar (Google PageSpeed Insights, e.d.).

. . .

9. | Samantekt

Samantekið má segja að vefur Arctic Circle sé þokkalega vel skipulagður og ágætlega hannaður. Hann þjónar þeim tilgangi, að vera upplýsinga- og tenglavefur aðstandenda ráðstefnunnar, þó hann sé langt í frá fullkominn og hunsi sumar hefðir, líkt og að sleppa leitarmöguleika. Þetta var sá galli sem helst var nefndur í notendaprófunum.

Fjölmargar villur koma upp þegar forsíðan er keyrð í gegnum Wave og vefurinn er hægur, nær aðeins 54% virki í Lighthouse. Þetta eru þó þættir sem vanur vefhönnuður eða vefstjóri gætu auðveldlega lagað og því verður að líta svo á að undirbúningur hafi ekki verið nægur áður en vefurinn fór í loftið. Líklega er reynt að uppfæra vefinn með nokkru átaki fyrir viðburðinn ár hvert, fremur en að nostrað sé við hann reglulega.

Talsvert er notast við tengla sem færa notendur á aðra vefi eða yfir í app (sem þarf að sækja sérstaklega), þar sem nálgast má frekari upplýsingar. Margt mætti bæta í virkni og aðgengi, sem dæmi er mikilvægt að hafa dagskrá aðgengilega á öðru formi en pdf fyrir notendur sem styðjast við skjálesara. Líkleg skýring er sú að meiri áhersla sé lögð á að vefurinn virki í mobile, frekar en í desktop.

Með þetta markmið í huga, má segja að forsíðan endurspegli hlutverk vefsins, þó hugsanlega sé vefurinn of einfaldur, jafnvel fyrir Steve Krug;

 • Hefðir í skipulagi eru notaðar að hluta en þar er ekki farið alla leið (engin leit, leiðakerfi í haus er blandað með nöfnum samfélagsmiðla, main-menu íkonið hverfur við skölun, engar upplýsingar í fæti).
 • Virðingarröð er skýr á forsíðunni og aðalatriðin sem stjórnendur vilja koma á framfæri eru í fókus og styðja við tilgang vefsins (þetta er gert með skýru þema, áberandi hnöppum, litavali og myndum) .
 • Svæði og einstakir þættir forsíðunnar eru skýrt afmarkaðir, einnig með litum, áberandi skerpu í litum og boxum/römmum.
 • Nokkuð augljóst er hvar skuli smella, heiti hnappa yfirleitt eitt eða tvö orð, truflanir fáar og lítið um óþarfa efni.
 • Það efni sem þó er á forsíðunni, er skannanlegt enda textinn afar knappur, þó eru ekki feitletruð orð (e. bold) notuð til þess að leggja áherslu á einstök lykilorð.

Vefur Arctic Circle sem hér hefur verið til skoðunar þjónar ráðstefnunni og vera kann að þetta knappa form og einfalda útlit henti vel í þessu tilfelli. Vefurinn er fyrst og fremst upplýsinga- og tenglavefur fyrir ráðstefnuna og gesti hennar, rétt á meðan á henni stendur, en í dróma þess á milli.

Vefurinn styrkir prófíl ráðstefnunnar út á við, en er ekki hugsaður til þess að vera vettvangur fyrir innihald og ekki staður fyrir opna umræðu um þau málefni sem rædd eru á ráðstefnunni. Þá umræðu verða áhugasamir að taka annars staðar en á ráðstefnunni sjálfri gefst einmitt gott tækifæri til þess að tjá hug sinn, sem er til fyrirmyndar.

. . .

10. | Kynning

. . .

Heimildir

Anna María Einarsdóttir og Atli Týr Ægisson. (2019). Grundvallaratriði vefmiðlunar – námsefni haustið 2019. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Arctic Circle. (e.d.). About. Sótt 1. nóvember 2019 af http://www.arcticcircle.org/about/about

Arctic Council. (e.d.). Home. Sótt 6. nóvember 2019 af https://arctic-council.org/index.php/en

Boag, P. (2010). Website Owners Manual – The Secret to a Successful Website. Greenwich: Manning. Sótt 18. nóvember 2019 af https://boagworld.com/uploads/WebsiteOwnersManual.pdf

Boag, P. (2017). User Experience Revolution – A practical battle plan for placing the user at the heart of your business. Dorset: Boagworks. Sótt 16. nóvember 2019 af https://boagworld.com/books/user-experience-revolution/

Funksjon. (2012). Notendaprófanir eru besta fjárfestingin. Sótt 3. nóvember 2019 af http://www.funksjon.net/2012/04/notendaprofanir-eru-besta-fjarfestingin

Funksjon. (2014). 10 aðgengismál á vef sem þú átt að skoða. Sótt 3. nóvember 2019 af http://www.funksjon.net/2012/04/notendaprofanir-eru-besta-fjarfestingin

Funksjon. (2017). Heyrir starf vefstjórans senn sögunni til? Sótt 6. nóvember 2019 af http://www.funksjon.net/2017/05/heyrir-starf-vefstjorans-senn-sogunni-til/

Google PageSpeed Insights. (e.d.). Lighthouse Scoring Guide. Sótt 16. nóvember 2019 af https://developers.google.com/web/tools/lighthouse/v3/scoring

Krug, S. (2014). Don’t Make Me Think, Revisited – A Common Sense Approach to Web Usability. New York: New Riders. Vefútgáfa sótt 1. nóvember 2019 af http://www.scottsdevelopers.com/dont-make-me-think-revisited.pdf

Nielsen, J. (1997). How Users Read on the Web. Sótt 13. nóvember 2019 af https://www.nngroup.com/articles/how-users-read-on-the-web

Nielsen, J. (2006). F-Shaped Pattern For Reading Web Content. Sótt 13. nóvember 2019 af https://www.nngroup.com/articles/f-shaped-pattern-reading-web-content-discovered

Sigurjón Ólafsson. (2015). Bókin um vefinn – Sjálfshjálparkver fyrir metnaðarfulla vefstjóra. Reykjavík: Iðnú.

Snowden, E. (2019). Permanent Record. London: Macmillan.

Stjórnarráð Íslands. (2017). Úttektir á opinberum vefjum – Hvað er spunnið í opinbera vefi 2017? Sótt 6. nóvember 2019 af https://www.stjornarradid.is/verkefni/upplysingasamfelagid/opinberir-vefir/vefhandbokin

Stjórnarráð Íslands. (e.d.). Vefhandbókin. Sótt 6. nóvember 2019 af https://www.stjornarradid.is/verkefni/upplysingasamfelagid/opinberir-vefir/vefhandbokin

Wave. (e.d.). Web Accessibility Evaluation Tool. Sótt 11. nóvember 2019 af http://wave.webaim.org/report#/http://www.arcticcircle.org

. . .

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Kennarar Anna María Einarsdóttir og Atli Týr Ægisson
Nemandi Sigurður Kaiser