Verkefni

1. | Notandi

Vefur ríkisstjórnar Íslands og Stjórnarráðsins, stjornarradid.is, er upplýsinga- og þjónustuvefur ráðuneyta. Vefurinn er hugsaður fyrir almenning, sem og fjölmiðla, þar sem ríkisstjórn hvers tíma hefur möguleika á að kynna áherslur, verkefni og áætlanir og koma á framfæri upplýsingum um þá þjónustu sem ráðuneytin veita.

Í vefstefnu Stjórnarráðs Íslands segir: „Markmiðið með vefnum er að fólk geti á einum stað nálgast upplýsingar, þjónustu og gögn frá Stjórnarráðinu með auðveldum hætti“ og „Notendur vefs Stjórnaráðsins eru fjölbreyttur hópur. Við skrif og framsetningu efnis er leitast við að taka tillit til ólíkra þarfa.“ Jafnframt er tekið fram að allt efni sé sett fram með almenna notendur í huga og leitast sé við að hafa texta stutta og skýra. Sérstaklega er hugað að aðgengismálum og viðmiðum í vefmálum fylgt í samræmi við Vefhandbókina (Stjórnarráð Íslands, e.d.).

Dæmigerður notandi síðunnar er Guðrún Halldórsdóttir, 52 ára embættismaður hjá ríkinu. Hún hefur unnið lengi hjá hinu opinbera og er vegna starfs síns sjóðsfélagi í Starfsmenntunarsjóði embættismanna. Tæknilæsi og tölvukunnátta hennar er góð og hún fer reglulega inná vef stjórnarráðsins til þess að sækja upplýsingar frá ráðuneytum, m.a. fréttir um einstök verkefni, upplýsingar um starfsfólk og hvort áhugaverð störf hafi losnað hjá ríkinu. Einnig hefur hún þurft að sækja eyðublöð vegna vinnunnar eða leita í laga- og reglugerðarsafni.

Guðrún hefur jafnframt persónulega hvata til þess að fara inn á vefinn þar sem hún hefur í hyggju að sækja um styrk hjá starfsmenntunarsjóðnum. Nýlega var haldin kynning á vinnustaðnum hennar, þar sem fram kom að hægt væri að fara inn á vefinn til þess að sækja um styrk og kynna sér úthlutunarreglur. Þar komst hún að því að „markmið starfsmenntunarsjóðs embættismanna er að auka tækifæri sjóðsfélaga til framhalds- og endurmenntunar svo og tölvukaupa.“ Frá vefnum getur hún skráð sig inn á island.is og við innskráningu segir að þá opnist „öruggt svæði umsókna“ (Starfsmenntunarsjóður, e.d.).

. . .

2. | Vefstefna

Vefurinn Háskóli forseta, forsetar.is, er sérstaklega settur upp sem verkefni í námskeiðinu Grundvallaratriði vefmiðlunar – starf vefstjórans og vefritstjórn. Markmið með vefnum er að birta síður og færslur sem eru hluti verkefna á námskeiðinu, en jafnframt að birta efni sem síðar gæti nýst sem hluti af hagnýtu verkefni í námi í blaða- og fréttamennsku. Vefurinn er því ekki hugsaður fyrir almenning á þessu stigi, en það kann að breytast.

2.1 | Efnistök
Fjallað er um háskólagöngu þriggja forseta; Vigdísar Finnbogadóttur, Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðna Th. Jóhannessonar; námsár Vigdísar í Frakklandi um miðja síðustu öld, nám Ólafs Ragnars í Bretlandi á sjöunda áratug 20. aldar og nám Guðna í Bretlandi og á Íslandi, undir lok síðustu aldar og í upphafi 21. aldar.

Umfjöllunarefnið teygir sig því yfir tímabil sem nær yfir hálfa öld, frá eftirstríðsárunum í Evrópu, yfir krepputíma og til eftirhrunsáranna á Íslandi. Í tilfelli Vigdísar beinist kastljósið að námi í frönsku og frönskum bókmenntum við háskólana í Grenoble og Sorbonne í París, í tilfelli Ólafs er horft til náms í hagfræði og stjórnmálafræði við Háskólann í Manchester og í tilfelli Guðna er námi hans í sögu og stjórnmálafræði við Warwick-háskóla á Englandi og framhaldsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands, Háskólann í Oxford og Queen Mary-háskólann í London, gerð skil.

2.2 | Efnisstefna
Leitað verður heimilda og upplýsinga um nám og háskólagöngu forsetanna þriggja í ævisögum, blaðagreinum og myndböndum á netinu og með öðrum þeim leiðum sem færar eru. Ekki stendur til að taka viðtöl við þau að svo stöddu, en slíkt kæmi til greina ef verkefnið þróast. Innihald viðtalanna yrði þá kjarninn í frekari umfjöllun um skólagöngu og háskólaár forsetanna. Hvort sem það yrði í formi útvarpsþátta, blaða- og vefgreina, eða sjónvarpsþátta. Leitast er við að nýta ljósmyndir sem finnast á netinu og heimild fæst til þess að nota.

2.3 | Skipulag
Skipulag vefsins er einfalt og leitast er við að fjarlæga allan óþarfa og beina sjónum að aðalatriðum. Vandað er til verka hvað varðar málfar, viðmót og uppbyggingu og efninu gerð viðunandi skil, svo það veki áhuga þeirra sem slysast inn á vefinn. Vefurinn er hannaður og unninn í WordPress.

2.4 | Samfélagsmiðlar
Ekki er stefnt að því að flytja efni vefsins yfir á samfélagsmiðla, né kynna vefinn og innihald hans sérstaklega á öðrum vefsvæðum. Til greina kemur að gera meira úr verkefninu síðar, t.d. með því að nýta það í hagnýtu verkefni í blaða- og fréttamennsku, líkt og áður hefur komið fram.

2.5 | Ábyrgð
Sigurður Kaiser, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, ber ábyrgð á efninu og hefur umsjón með vefnum.

2.6 | Endurskoðun
Áætlað er að endurskoða vefstefnu þessa árlega.

. . .

3. | Ferð og flæði

Fjöldi verkfæra eru í verkfærakistu vefstjóra og vefhönnuða, þegar kemur að því að miðla efni og gera notendum auðveldara að nálgast og nýta sér þjónustu vefs, bæta notendaupplifun og laga notendaviðmót. Ein aðferð til þess að reyna að spá fyrir um notendahegðun er að kortleggja ferð notanda (e. user journey) og flæði notenda (e. user flow).

Ferð notanda mætti skýra með því að horft sé ofanfrá á þær aðgerðir sem notandi þarf að framkvæma til þess að ljúka tilteknu verkefni, allt frá því að kveikt sé á tölvunni eða síminn sóttur úr vasanum og þangað til verkefninu er lokið. Þetta mætti líka kalla ferð viðskiptavinar sem vill sækja sér tiltekna þjónustu á vefnum.

Yfileitt er nokkuð auðvelt að skilgreina þá leið sem notandi þarf að fara til þess að klára verkefnið, hvort sem það snýst um að panta pizzu, kaupa bíómiða, taka bílalán, fylla út atvinnuumsókn eða kjósa í kosningum, svo nokkur dæmi séu tekin. Þegar horft er á þessa ferð notanda framkallast einskonar leiðarkort með nokkrum skilgreindum stoppistöðvum.

Flæði notanda fjallar svo um það sem hvað gerist á þessum tilteknu stoppistöðvum, hvaða skjámyndir birtast og hvaða upplýsingar notandinn þarf að láta af hendi og hvaða upplýsingum er miðlað til hans. Hér er í raun um að ræða tæknilega hluta ferðarinnar; hvaða viðbætur eru nauðsynlegar eða hvers konar gagnvirkni þarf að vera til staðar svo notandinn komist áfram á næstu stoppistöð þangað til verkefninu er lokið.

Þetta getur snúist um að fylla út í tiltekin box, slá inn tölur eða orð, leita að upplýsingum, haka við valkosti sem í boði eru, hlaða upp/niður gögnum eða velja tiltekin atriði af listum. Flæðið skýrir þá hvað gerist eftir hvert þrep, eftir því hvað notandinn kýs að gera á hverri stoppistöð.

Að kortleggja ferð og flæði notenda fyrirfram og með notendaprófunum getur hjálpað vefhönnuði að taka réttar ákvarðanir við hönnun vefs. Góður upplýsingaarkitektúr og réttar miðlunarleiðir geta skipt sköpum þegar þarf að aðstoða notendur við að komast á leiðarenda og ljúka því verkefni sem þeir koma til þess að sinna á vefnum.

Vel úthugsað notendaflæði gefur betri notendaupplifun og getur leitt til sparnaðar hjá fyrirtækjum og stofnunum, því minna er um símhringingar í þjónustuver ef notandi getur sjálfur leyst verkefnin á vefnum (sjá Anna María Einarsdóttir og Atli Týr Ægisson 2019, UX Planet 2017).

. . .

4. | Flokkunaræfing

Fjölmargar leiðir eru færar þegar kemur að því að undirbúa vefverkefni, endurskipuleggja virka vefi eða skapa glænýja. Flestum sérfræðingum ber saman um að undirbúningsferlið sé afar mikilvægt og tímanum sem varið sé í skipulagsvinnu áður en vefur birtist almenningi, geti gert gæfumuninn í því að þróa og bæta upplýsingaarkitektúr vefsins.

Betra er að verja meiri tíma í að hugsa vefi og skipulag þeirra fyrirfram, heldur en að sitja uppi með óvandaðan grunn sem flókið og dýrt getur reynst að breyta eftirá. Góður undirbúningur skilar sér þannig bæði í betri notendaupplifun og í minni kostnaði við breytingar eða lagfæringar síðar.

Einna mikilvægast er einmitt að gleyma ekki væntanlegum notendum í þessu ferli og gera reglulegar notendaprófanir (líka áður en vefir fara í loftið) sem gefa vísbendingar um viðbrögð raunverulegra notenda og hvort þeir átti sig auðveldlega og helst án útskýringa á virkni og leiðarkerfum.

Ekki er þó víst að stjórnendum og þeim sem taka ákvarðanir séu sammála þessu, því oft er hlaupið til og kallað eftir nýjum vef með nýjasta útlitinu, helst eftir helgi. Virkni og gæði vefs snýst þó ekki eingöngu um útlitið heldur skiptir efni og innihald einnig miklu máli. Þess vegna þarf að huga að uppbyggingu og flokkun efnis á frumstigum verkefna.

Hin svokallaða flokkunaræfing (e. card sorting) er jafnan talin góð aðferð við að skipuleggja efni í hugbúnaðar- og vefþróun. Hún er nýtt til þess að greina mikilvægi og forgangsraða innihaldi og endurskipuleggja ytri og innri vefi, sem þegar eru virkir og jafnvel leysa úr gömlum vefflækjum.

Ef vel er staðið að æfingunni geta niðurstöðurnar nýst vefstjórum, forriturum og vefhönnuðum við undirbúning nýrra vefja eða við lagfæringar á eldri vefjum sem þarfnast uppfærslu. Engin ein rétt aðferð er til, en í grunninn snýst æfingin um að flokka saman heiti á undirsíðum eftir skyldleika og mikilvægi.

Heiti mikilvægustu eða mest sóttu undirsíðna vefs (eða væntanlegs vefs) eru rituð á miða (um 30-50 eftir stærð vefs). Þátttakendur (helst ekki færri en 10) færa miðana svo í flokka eftir skyldleika og forgangsraða eftir vægi innan flokksins. Eftir að þátttakendur hafa rökstutt val sitt er hverjum flokki gefið lýsandi heiti yfir efnið sem þar er undir, innihald flokksins. Þá geta þátttakendur séð fyrir sér forsíðu vefs og ímyndað sér að heiti flokkanna séu heitin á skiltum eða hnöppum í leiðarkerfinu.

Æfingin sýnir vefstjórum og hönnuðum hvernig notendur hugsa og hvaða væntingar þeir hafa um efni sem verið er að vinna fyrir vefinn, hvaða undirsíður séu mikilvægastar og hverjar jafnvel óþarfar.

Í flestum þeirra tilfella þar sem gerðar hafa verið prófanir á tveimur mismunandi leiðarkerfum; einu sem hefur verið raðað upp af vefhönnuðum eða starfsfólki, og öðru sem hefur farið í gegnum flokkunaræfingu, þá hafa niðurstöður verið afdráttarlausar og notendur alltaf í takti við niðurstöður flokkunaræfinga (sjá Anna María Einarsdóttir og Atli Týr Ægisson 2019, Sigurjón Ólafsson 2015, Usability e.d.).

. . .

5. | Texti

Í þessu verkefni er unnið með texta í pistli Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, sem birtist í Stundinni 27. október 2019. Textinn er endurskrifaður og styttur í samræmi við verkefnalýsingu. Pistill Þórdísar heitir: Glansmyndafólkið sem við elskum að hata – Hver veit nema sjálfsmyndarfólkið þurfi mest á stuðningi okkar að halda?

. . .

Skapar glansmyndin hamingjuna?

– Söfnunarátak vegna samfélagsmiðlakvíða og selfieáráttuhegðunar

Glansmyndafólkið er að gera það gott:
Hann frumsýnir sixpakkið en borðar bara pizzur.
Hún fær hundrað læk en birtir samt boring pósur.
Hann smælar eins og veiðikóngur og veit að það pirrar mig.
Hún hoppar með klárafallegafólkinu upp á Helgafell á helgidögum.
Af hverju ekki ég?
Eru þau kannski fullkomin og eiga sundlaug og krakka sem kúkekki?

Græða þegar þú grætur
Þetta fullkomna fólk er svo skrítið en maður má ekki skamma það. Rannsóknir sýna að samfélagsmiðlakvíði er raunverulegur og samanburður við óraunhæfar glansmyndir getur valdið minnimáttarkennd. Lestur tískutímarita rýrir sjálfstraust kvenna og þær sem hafa glatað sjálfstraustinu, kaupa miklu meira drasl. Þeir græða á meðan konan grætur.

Eina sjúka selfie takk
En hvað með fullkomnu týpuna með geggjaða albúmið? Ég elska að hata hana! Ég veit samt (eftir að ég googlaði glansmyndir samfélagsmiðla) að ekki er allt gull sem glóir. Það er enginn með svona rosalegt sixpakk. Þetta var lýsingin #ekkinofilter. Það hoppar heldur enginn upp á Helgafellið. Hún keyrði langleiðina og labbaði rest. Bara fyrir eina sjúka selfie. Klassísk selfieáráttuhegðun. Þetta fullkomna fólk er svo skrítið.

Öll lífsins blæbrigði
Margir nota þó samfélagsmiðla til þess að afhjúpa hliðar á mannlegri tilveru sem hafa verið sveipaðar svartnætti. Fara í undarleg ferðalög um geðsjúka heima, til þess að draga úr fordómum og auka skilning; segja frá, skila skömm, rjúfa þögn og vekja von. Ofbeldi á ekki að vera óhjákvæmilegur hluti tilverunnar. Þessi opinberun er af hinu góða. Hún hjálpar okkur að opna augun fyrir blæbrigðum lífsins.

Hvað kostar að koma fram?
Sumir geta samt ekki opnað sig. Mega hreinlega ekki við því að lofta út. Vilja ekki segja frá, af ótta við ófrið í einkalífi. Taka ekki áhættuna, tjá sig ekki, tala ekki. Forðast að takast á við afleiðingarnar. Þola ekki afleiðingar. Þora ekki. Þegja þess í stað og þjást, bera harminn í hljóði, því það gæti kostað að koma fram.

Tvær hliðar á bardaganum
Hvað finnst ykkur samt um glansmyndafólkið? Selfieáráttupakkið? Hér takast á tvær hliðar. Sumir eru bara að safna saman þessum litlu augnablikum sem gera lífið þess virði að lifa. Reyna að púsla saman geðheilsunni eftir áföll og harmleiki. Vilja ekki að lífið einkennist af ótta og áhyggjum. Taka mark á sálfræðingum sem segja að við eigum að vega upp á móti skakkaföllum með jákvæðum kvæðum. Monta okkur af fallega garðinum, njóta góðrar vináttu og hlýja faðmlagsins, jafnvel vínglassins. Laða til okkar það góða. Vera hress.

Við heyjum öll bardaga sem aðra varðar ekkert um. Við skuldum engum að segja sögu okkar, en verum samt góð við hvert annað, líka glansmyndafólkið. Hver veit nema þau þurfi mest á okkur að halda.

Því glansmyndin skapar ekki hamingjuna… því miður.

. . .

Heimildir

Anna María Einarsdóttir og Atli Týr Ægisson. (2019). Grundvallaratriði vefmiðlunar – námsefni haustið 2019. Reykjavík: Háskóli Íslands.

Háskóli Íslands. (2015). Vefstefna Háskóla Íslands. Sótt 12. nóvember 2019 af https://www.hi.is/sites/default/files/stjori/gogn/vefstefna_haskola_islands_2015_0.pdf

Sigurjón Ólafsson. (2015). Bókin um vefinn – Sjálfshjálparkver fyrir metnaðarfulla vefstjóra. Reykjavík: Iðnú.

Starfsmenntunarsjóður embættismanna. (e.d.). Um sjóðinn. Sótt 7. nóvember https://www.starfsmenntunarsjodur.is/um-sjodinn

Stjórnarráð Íslands. (e.d.). Um vefinn. Sótt 7. nóvember 2019 af https://www.stjornarradid.is/um-vefinn

Stjórnarráð Íslands. (e.d.). Vefhandbókin. Sótt 6. nóvember 2019 af https://www.stjornarradid.is/verkefni/upplysingasamfelagid/opinberir-vefir/vefhandbokin

Usability. (e.d.). Card Sorting. Sótt 12. nóvember 2019 https://www.usability.gov/how-to-and-tools/methods/card-sorting.html

Usability. (e.d.). Information Architecture Basics. Sótt 12. nóvember 2019 af https://www.usability.gov/what-and-why/information-architecture.html

UX Knowledge Base Sketch. (e.d.). Sketching for UX designers. Sótt 1. desember 2019 af https://uxknowledgebase.com

UX Planet. (2017, 18. október). User Journey Vs User Flow – Differences & Similarities. Sótt 1. desember 2019 af https://uxplanet.org/user-journey-vs-user-flow-differences-similarities-c970e1dd58c7

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. (2019, 27. október). Glansmyndafólkið sem
við elskum að hata – Hver veit nema sjálfsmyndarfólkið þurfi mest á stuðningi okkar að halda?
Sótt 1. nóvember 2019 af https://stundin.is/grein/9788/glansmyndafolkid-sem-vid-elskum-ad-hata

. . .

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Kennarar Anna María Einarsdóttir og Atli Týr Ægisson
Nemandi Sigurður Kaiser