Táknin í lífi Steinunnar

„Ég vildi hrista upp í fólki og breyta upplifun þess af byggingunni. Hugsunin var að þetta yrði alvöru inngrip í almannarýmið, einskonar innrás sem fólk myndi taka eftir. Listin á að ögra og hræra upp í samfélaginu,“ segir Steinunn Þórarinsdóttir, myndlistarkona, um tilganginn með listaverkinu Táknum.


Steinunn vildi með verkinu, sem hún vann í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur, yfirtaka þekkt kennileiti og sýna það í nýju ljósi. Upphaflega kom Hallgrímskirkja til greina sem sýningarstaður, en að lokum varð Arnarhvoll fyrir valinu, þar sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið er til húsa, á horni Sölvhólsgötu og Ingólfsstrætis.

Verkið, sem samanstendur af ellefu fígúrum úr steyptu áli, hefur vakið verðskuldaða athygli enda óvenjulegt að nýtt listaverk sé staðsett á jafn áberandi stað á eldri byggingu í Reykjavík. Hinar kynlausu álfígúrur drottna yfir umhverfinu og hafa yfirsýn yfir nýju umdeildu húsin við Hafnartorg. Verurnar setja afgerandi svip á umhverfið og taka bygginguna bókstaflega yfir.

„Þetta er magnaður staður og verkið sést víða að. Byggingin er að mörgu leyti einföld en klassísk og hentar vel. Einhverjum kann að finnast þetta of dramatískt inngrip. Sumir frjósa eða grípa andann á lofti þegar þeir sjá verurnar naktar þarna á þakinu, vættina sem vaka yfir borginni eins og þeir hafa verið kallaðir. En ég hef eiginlega bara fengið jákvæð viðbrögð síðan við opinberuðum verkið,“ segir listakonan.

Innblásin af Rómarborg

Steinunn er margverðlaunaður myndlistarmaður og hefur starfað við listsköpun í um 40 ár, víða um heim. Hún var með vinnuaðstöðu í Róm á árunum 2015 til 2017 þegar hún vann að Táknum og segir hugmyndina nátengda klassískri hugsun í myndlist, líkt og birtist víða í Rómarborg, meðal annars á hinu fornfræga Péturstorgi.

Táknin skapaði hún upphaflega fyrir stríðsminjasafn í Dresden, fyrir framhlið byggingar sem áður hýsti vopnabúr þýska hersins. Þar birtust kynlausu fígúrurnar í stað eldri höggmynda, grófari stytta af stríðsmönnum í fullum herklæðum, sigurtáknum sem höfðu horfið í stríðinu.

„Þar var hugmyndin að sýna verk sem byggði á annarri hugsun og annarri nálgun, mannlegri, viðkvæmari og berskjaldaðri nálgun og fangaði frið og innri styrk manneskjunnar. Þýski herinn sem á þetta safn er upptekinn af því að breyta hugmyndum um það hvernig Þjóðverjar eru í raun. Seinni heimstyrjöldin er svartur blettur og þeir eru enn að gera upp stríðið.“

Ekki samkomubann á vinnustofunni

Sýningarsalur og verkstæði Steinunnar í bakhúsi við Sólvallagötu er magnaður undraheimur þar sem allskyns mannlegar verur klifra upp veggina eða spretta uppúr gólfinu. Nokkrar sviplausar og ómótaðar, hangandi í keðju, aðrar rísandi úr steinbjörgum, starandi til himins.

Sumar eru feimnar og niðurlútar en aðrar afslappaðar og hafa fengið sér sæti líkt og þær hafi droppað inn í kaffi. Flestar eru þær allsberar og kynlausar en þó má greina hitt kynið, kvenkynið í fáeinum, jafnvel þótt þær séu afsteypur af líkama karlmanns, syni listakonunnar.

Ég færi Steinunni arabískt kaffi við komuna og segi að ég hafi ekki búist við þessu fjölmenni. Samkomubannið hafi greinilega ekki enn náð til leynirýma listafólks í Vesturbænum. Hún hlær og viðurkennir að stundum líði henni eins og rýmið iði af lífi, þó vissulega séu fígúrurnar líflausar og engu líkara en þær hafi verið frystar, tíminn stöðvaður.

Þetta sé erfitt að útskýra, en hún finni vel fyrir þeim, enda leggi hún talsverða vinnu í hverja og eina og tengist þeim með einhverjum óútskýranlegum hætti.

Mannleg samskipti og átök

„Ég hef lengi verið að vinna með manneskjuna, mannleg samskipti og átök á milli fólks. Verkin hafa verið að þróast enn lengra í þessa átt á síðustu árum,“ segir Steinunn.

Hún heldur að sá hópur fólks sem spái ekki mikið í myndlist, eða hafi einfaldlega ekki áhuga, tengi frekar við verkin hennar vegna þess að þau séu fígúratíf og snúist um manneskjuna.

Steinunn segist ekki feimin við að upphefja mennskuna og að hún hafi ekki viljað skilgreina sig sem minimalista, þó verkin séu mörg einföld.

„Ég hef ekki viljað skilgreina verkin mín mjög þröngt. Við erum öll svo ólík og sjáum hlutina með ólíkum hætti og það er náttúrulega bara jákvætt. Fólk túlkar verkin með mismunandi hætti en flest eru þó í raun einhverskonar tákn mennskunnar. Mennskan er svo margt, bæði leiðinleg og skemmtileg, góð og vond og ekki tákn fyrir eitthvað eitt, heldur allt sem býr í okkur sem manneskjum.“

„Stundum finnst mér undarlegt að fylgjast með því hvernig heimsmálin þróast og spegla margt af því sem ég hef verið að fjalla um. Sérstaklega núna þegar við sjáum þessi auknu átök á milli fólks og landa, bæði innan Evrópu og nú síðast á milli Evrópu og Bandaríkjanna á tímum Trump, næstum eins og verkin hafi orðið hluti af einhverri þróun í heiminum.“

Við erum öll tengd

Í þessu sambandi nefnir hún verkið Borders sem hefur verið sýnt víða um Bandaríkin en birtist fyrst í almenningsgarði við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2011. Verkið samanstendur af 26 fígúrum sem horfast í augu yfir landamæri, þrettán pörum sem spegla hvert annað, eitt úr stáli en hitt úr áli.

Hún segir að hugmyndin sé að sýna fram á að þrátt fyrir átök og fjarlægðir á milli okkar, séum við öll samtengd. Það komi betur í ljós með tímanum og með afgerandi hætti þessa dagana. Hún segir að verkið hafi verið unnið áður en þessi mikla umræða um landamæri hófst, löngu áður en veiran sem nú er að setja allt á hliðina gerði vart við sig.

Steinunn segir að með því að staðsetja listaverk í opnu rými sem almenningur dvelur alla jafna, umbreytist rýmið og notkun þess. Svæðið geti lifnað við og orðið að skapandi torgi, líkt og gerðist með Borders.

„Maður vill að fólk staldri við og hugsi og spegli sig í verkunum. Þess vegna er mikilvægt að listin sé aðgengileg þar sem fólkið er, en ekki lokuð inni á safni. Ég hef oft valið almannarýmið sem vettvang með þetta í huga. Það er tiltölulega afmarkaður hópur sem fer á listasöfn. En ef verkið er í opnu rými upplifa fleiri verkið og jafnvel fólk sem myndi aldrei gera sér ferð í gallerí. Því fleiri sem sjá listaverk, þeim mun meiri umræða og líklegra að listin skipti samfélagið máli. Slíkt beint samtal er gjöfult fyrir listafólk og þróun listarinnar,“ segir Steinunn.

„Listin er svo stór hluti af manneskjunni, án þess að við gerum okkur alltaf grein fyrir því og hún á að vekja okkur til umhugsunar og skapa umtal. Eitt af mikilvægustu hlutverkum listarinnar er að ögra, hreyfa við fólki og fá okkur til að hugsa.“

Þörf fyrir að skapa

Nú styttist óðum í samkomubann og því hljóta verurnar á vinnustofunni að fara að huga að heimferð, beint í sóttkví. Áður en við kveðjumst undir fréttum af lokuðum landamærum spyr ég hvers vegna Steinunn finni þessa miklu þörf fyrir að skapa og gefa af sér með listsköpun.

„Þetta er erfið spurning, því maður er oftast að vinna verkefni fyrir aðra og almenningur nýtur náttúrulega góðs af því, sérstaklega ef verkið er í opnu rými. Í grunninn er maður samt að gera þetta fyrir sjálfan sig. Það hljómar kannski skringilega, en ef maður er ekki að skapa fyrir sjálfan sig eða af því að maður finnur sig knúinn til þess, þá líður manni ekki vel.“

„Áhrifin koma vissulega frá umhverfinu, en sköpunin kemur alltaf frá manni sjálfum. Maður gerir þetta vegna innri löngunar. Og ef ég er ekki að skapa, þá vantar eitthvað, það er bara svoleiðis. Frumþörfin er mjög sterk.“

„Þannig skynja ég til dæmis Táknin og finn fyrir verunum þarna uppi á þakinu. Mér finnst gott að verkið sé úti en ekki lokað af. Þannig miðlar það sér sjálft og ég þarf ekki að vera á staðnum til þess að útskýra. En ég keyri stundum framhjá og horfi á verurnar. Hugsa í raun um þær á hverjum degi, það er stórskrýtið,“ segir þessi magnaða listakona að lokum.

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Viðmælandi Steinunn Þórarinsdóttir
Kennari Anna Lilja Þórisdóttir
Nemandi Sigurður Kaiser