Vegabréfið gegn snjallsímanum

Til hvers eru landamæri?

Þessar ósýnilegu og ónáttúrulegu línur sem skera fjöll og fjörur, borgir og byggðir. Birtast sem rauð reglustrik á heimskortinu. Mannasetningar sem skipta náttúrunni á milli okkar og mannfólkinu upp í hópa og landslið, flokka og fylkingar. Ramma inn ríki.

Landamæri eru uppspretta margra helstu deilumála samtímans og daglega birtast fréttir um baráttu fólks við margvísleg mæri; hugmyndafræðileg, menningarleg og pólitísk. Sögulega hafa landamæri verið kveikjan að stríði og hörmungum eða lykillinn að sigri og friði. Þau kalla fram það besta og það versta í manninum.  


Land

Allt landsvæði á Jörðinni er nú innan landamæra um 200 sjálfstæðra þjóðríkja. Öll börn fæðast innangarðs í fæðingarlandi. Brjótast út sem borgarar og eignast vegabréf. Velkomin í heiminn og góða ferð.  

En til hvers? Virka þessir veggir sem hefta för og skerða frelsi? Sem setja manneskjum mörk og mismuna börnum strax við fæðingu? Gagnast þessar girðingar almennum borgurum og samfélaginu sem heild? Eða gagnast þær aðeins fáum útvöldum, þeim hópum sem halda um völdin hverju sinni, elítunni?  

Og hver græðir á landamærum? Eru það borgararnir, bisnessmenn, börn eða bófar?  

Mörk

Daglega ferðumst við yfir allskonar brýr. Mörk á milli svæða sem við höfum skilgreint sem hluta af einu rými en ekki öðru. Flest gegna svæðin hlutverki.  

Rúmið okkar er afmarkað, þangað hleypum við aðeins útvöldum. Svefnherbergið er lokað, baðherbergið læst. Íbúðin innan veggja og heimilið, lögverndað og friðheilagt, skilgreint öryggissvæði, sóttkví.  

Við opnum og lokum bílhurðinni, borgum í strætó, greiðum fyrir leigubílinn eða kaupum flugmiða á framandi slóðir. Hreppurinn, sýslan og kjördæmið er afmarkað landsvæði. Sveitarfélagið og borgin hefur endimörk og loks landið sjálft. Hið fullvalda ríki.  

Mæri

Að ógleymdum mærum hins daglega lífs; persónulega svæðinu sem við eigum útaf fyrir okkur og mörkunum sem við setjum í samskiptum við annað fólk. Ósýnileg mæri sem aðrir verða að virða.  

Hugsanir og minningar eru líka afmarkað svæði. Þangað hleypum við eingöngu þeim sem við treystum fyrir tilfinningum okkar, vonum og væntingum.  

Við þetta bætist hin stafræna tilvist á veraldarvefnum þar sem svipuð lögmál gilda. Þannig má segja að við eigum persónulegt fullveldi, líkamlegt og andlegt, hliðrænt og stafrænt. Við tökum ákvörðun um hvort og hvernig við ráðstöfum því og deilum með öðrum.   

Frelsi

Upphaflega voru landamæri hugsuð til þess að skilgreina pólitískar og félagslegar einingar, afmarka landsvæði og aðskilja þjóðir og þjóðflokka. Stofna ný ríki. Tryggja öryggi, frið, lög og rétt. Viðhalda völdum.  

Þessi þjóðríkjavæðing þróaðist yfir í hnattvæðingu sem leiddi af sér aukið lýðræði, frelsi, alþjóðavæðingu og „algild“ mannréttindi. Múrar féllu. Heimsþorpið varð til.  

Sem aftur leiddi til upplýsingavæðingar og stafræns landamæraleysis. Umbyltingu á sviði samskiptatækni. Ótrúlegs gagnamagns.  

Enda eru upplýsingar olía 21. aldarinnar, nýja svarta gullið. Fylgst er með okkur í gegnum símann og hvert við ferðumst veifandi vegabréfinu. Við erum undir eftirliti og við erum söluvaran. Frelsið til sölu.  

Bakslag

Nú er hátíð þeirra sem vilja loka landamærum. Meina meintum vágestum inngöngu og halda utangarðsfólki utan ríkis. Brottvísa.  

Heimsfaraldur styður málstaðinn. Popúlistar vakna og grípa tækifærið. Flagga þjóðernishyggju.  

Greina má ákveðinn viðsnúning, bakslag. Frjálsræðið sem fylgdi hnattvæðingunni er á undanhaldi. Einangrunarhyggja gerir vart við sig, þjóðerninisvitund eykst og þjóðleg gildi gilda. Þjóðríkið snýr aftur.  

Þannig má segja að þessi tvö fyrirbæri séu andstæðir pólar í nútímasamfélaginu og takist stöðugt á:

  • Vegabréfið sem táknmynd lokaðra landamæra, virkisveggja, hindrana og takmarkana, og
  • Snjallsíminn sem táknmynd opna heimsþorpsins, múrveggjaleysis, athafna- og ferðafrelsis.

Hvort vegabréfið sigri snjallsímann eða snjallsíminn lifi af vegabréfið, getur tíminn einn leitt í ljós.  

Ástin og lífið

En á meðan við erum minnt á þá dauðans alvöru að lífshættulegar veirur og vírusar virða engin landamæri, getum við að minnsta kosti huggað okkur við það að ástin og lífið virðir heldur engin landamæri. Enda lifum við til þess að elska.  

Og ástin er lífseig, sem betur fer.    

. . .

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Kennari Anna Lilja Þórisdóttir
Nemandi Sigurður Kaiser