Veirur í veislusölum valdsins

Stjórnarskrármálið hefur áratugum saman einkennst af þrátefli stjórnmálaflokka og situr nú fast í enn einni nefndinni á Alþingi.

Forsætisráðherra lýsti því nýverið yfir að þingið væri stjórnarskrárgjafinn. Þetta vakti furðu enda grunnhugmynd lýðræðisríkja að uppspretta ríkisvalds sé hjá þjóðinni. Yfirlýsingin opinberar togstreituna sem lengi hefur litað málið. Hún sýnir í besta falli, að hugmyndir um grundvöllinn að stjórnskipulagi landsins eru á reiki, en vekur í versta falli ugg á tímum þar sem átök um vald og valdmörk eru í tísku og lýðræðið víða á undanhaldi.

Ekki síst nú, á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var okkur, íslensku þjóðinni, í fyrsta skipti hleypt að borðinu og stjórnlagaráði falið að endurskoða æðstu lög landsins.

En þrátt fyrir þátttöku þjóðarinnar og afgerandi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem samþykkt var að frumvarp ráðsins skyldi vera nýr grundvöllur stjórnarskrár, hefur Alþingi ekki auðnast að afgreiða málið. Hin fögru fyrirheit um samfélagssáttmála þar sem við fengjum öll sæti við sama borðið, virðast týnd og tröllum gefin. Fólk með gullfiskaminni er fljótt að gleyma.

Hrunið… þið munið.

Stjórnarskrármálið er hér reifað og stiklað á stóru á langri vegferð. Tveir aktivistar sem spruttu fram á sjónarsviðið í hruninu, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason, leggja orð í belg og hugsa upphátt. Þau hafa barist fyrir nýrri stjórnarskrá með smitandi hugsjónir og heilbrigða skynsemi að vopni.

Ástandið í einangraðri kórónuveröld gerði blaðamanni ekki kleift að eiga hefðbundið viðtal við Þorvald en rafræn samskipti standa þó fyrir sínu, auk þess sem hugleiðingar og tilsvör eru sótt í greinaskrif Þorvaldar. Katrín tók hinsvegar galvösk og fullfrísk á móti blaðamanni, í galtómri en bjartri og fallegri Veröld, húsi Vigdísar við Suðurgötu. Þar snertast allra þjóða tungur og blandast í suðupotti mála og menningar.

Þau eru boðflennur, tvær veirur í veislusölum valdsins, en þau trúa því að við sem byggjum Ísland, munum fyrr eða síðar, eignast nýja stjórnarskrá.


I | Saga um vald og valdmörk

Saga stjórnarskrár Íslendinga er saga um vald og valdmörk. Vald þjóðar, vald þings, vald konungs og forseta. Saga menningarlegrar og pólitískrar valdbeitingar.

Einu sinni var Ísland hluti af Danmörku. Danaveldi. Líklega eru margir búnir að gleyma þessu, enda heil öld frá því við urðum fullvalda og mannsaldur síðan við öðluðumst sjálfstæði. Urðum frjáls þjóð í eigin landi. Lýðveldið Ísland. Laus undan oki konunga og hirða þeirra. Laus til æðis og athafna. Réðum okkur sjálf.

Við vorum þó aldrei Danir, ekki dönsk, heldur Íslendingar og jafnan stolt af þjóðerni og ættjörð. Sjálfstæðisbaráttan byggðist á hugmyndinni um okkur sem sérstaka þjóð, afmarkaða kvísl á ættartré mannkyns.

Konungur beitir valdi

Stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands, frá árinu 1874, er grunnurinn að stjórnarskránni sem enn er í gildi, 146 árum síðar. Þjóðfundurinn 1851 varð til þess að hreyfing komst á sambandið við Danakonung, en þrátt fyrir fræg mótmæli fundarins, fór danska ríkið áfram með forræðið.

Fyrsta stjórnarskráin var því sett einhliða af Danakonungi, án þátttöku íslensku þjóðarinnar eða fulltrúa hennar á Alþingi. Konungur beitti valdi sínu og færði okkur plaggið að gjöf. Þjóðin hafði enga aðkomu og textinn erlendur.

Á næstu áratugum voru stigin mikilvæg skref í átt að sjálfstæði og ráðuneyti í málefnum Íslands, framkvæmdavaldið, fluttist til landsins í upphafi 20. aldar. Við fengum fullveldi og nýja stjórnarskrá árið 1918, en þrátt fyrir heimastjórn, þjóðkjörið þing og rýmri kosningarétt var aðkoma fólksins takmörkuð. Konungur hélt sínu neitunarvaldi og plaggið var límt saman í veislusölum valdsins.

Lýðveldi verður til

Í miðri síðari heimstyrjöld, þegar Danmörk var hersetin, gengu forystumenn stjórnmálaflokkanna á lagið. Með samstilltu átaki slitu þeir sambandinu við Dani, virkjuðu samtakamátt þjóðarinnar og stofnuðu lýðveldi með stjórnarskrá árið 1944.

En það plagg byggði að mestu á gamla danska textanum, utan þess að konungi var skipt út fyrir forseta. Þjóðkjörnum forseta Íslands var fært synjunarvald gagnvart lögum, málskotsrétt, og þar með hlutdeild í löggjafarvaldinu fyrir hönd þjóðarinnar.

Ástandið var viðkvæmt og talið óskynsamlegt að ráðast í heildarendurskoðun fyrr en lýðveldið var í höfn og konungdæmið úr sögunni. Engar breytingar voru gerðar nema þær sem voru nauðsynlegar vegna sambandsslitanna. Ekki þótti rétt að taka áhættu með því að leyfa þjóðinni sjálfri að vinna verkið. Í stað þess var viðurkennt að plaggið væri til bráðabirgða og að fulltrúar þjóðarinnar tækju að sér að semja nýja stjórnarskrá, sem fyrst. Það verkefni stendur enn.

Grunnréttindi tryggð með stjórnarskrá

Sigurður Líndal, prófessor emeritus, segir að sagan sýni að stjórnarskrár dugi skammt einar og sér þegar þjóðríki fæðast eða þegar breytingar á stjórnskipan standi fyrir dyrum. Texti slíkra plagga mótist af hefðum og hugsunarhætti en það þjóni lýðræðinu engu að síður vel að sameina stjórnskipulag í einn lagabálk.

Hann segir að grundvallarlög ættu að vera þannig úr garði gerð að þau séu aðgengileg, að borgarar geti kynnt sér valdheimildir ríkisins, hvernig ríkið sé skipulagt og hvert hlutverk og valdsvið þess sé. Þá sé mikilvægt að stjórnarskrá sé skýrt orðuð og ákvæði um réttindi borgaranna séu skilmerkilega fram sett.

„Nú er ekki nægilegt að setja góðar og skynsamlegar reglur – tryggja þarf að eftir þeim sé farið – til dæmis með óhlutdrægum dómstólum í stað þess að þetta sé látið eftir konungi eða þingi þar sem pólitískur meirihluti er síbreytilegur,“ segir Sigurður og heldur áfram: „Til grundvallar stjórnarskrám liggur því einnig sú hugmynd að frelsi borganna og grunngildi samfélagsins verði einungis tryggð í sérstakri skrá sem gangi framar öllum öðrum lögum og komið sé í veg fyrir að valdastofnanir samfélagsins virði að vettugi stjórnskipuleg mörk sín.“

Sigurður áréttar að stjórnskipanin sé reist á þeirri grunnhugmynd að stjórnarskrá sé ekki einhliða valdboð eða leiðsögn, sem gjarnan einkenni lög, heldur sáttmáli um skipulag ríkisins og stöðu borgaranna innan þess. Stjórnarskrá eigi að tryggja stöðugleika og festu í þjóðfélaginu og standa af sér tímabundin átök stjórnmála. Engu að síður sé ljóst að engin stjórnarskrá geti staðið óbreytt um ár og aldir, þrátt fyrir mikilvægi stöðugleikans.

Þingmenn skipa nefndir

Að loknu síðara stríði var mikil gerjun og uppstokkun í alþjóðasamfélaginu sem miðaði að því að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar gætu endurtekið sig. En þrátt fyrir fögur fyrirheit, lognaðist vinna vegna breytinga á stjórnarskrá útaf og hugmyndir svonefndrar milliþinganefndar um nýja lýðveldisstjórnarskrá, komust aldrei formlega á dagskrá Alþingis.

Árið 1947 skipaði þingið nefnd forystumanna flokkanna sem fékk það verkefni að endurskoða plaggið. Engar tillögur komu þó frá nefndinni þrátt fyrir allnokkra umræðufundi og tillögur. Ný nefnd var ekki skipuð fyrr en 1974, tæpum þremur áratugum síðar. Hún skilaði af sér miklu verki og fundaði oft, án þess þó að leggja fram heildstætt frumvarp. Samstöðu þvert á flokka skorti. Nefndin starfaði í áratug og að endingu lagði formaðurinn, Gunnar Thoroddsen, þáverandi forsætisráðherra, fram frumvarp í eigin nafni sem byggði á vinnu nefndarinnar. Sú vegferð hlaut þó ekki brautargengi á Alþingi. 

Enn var skipuð nefnd árið 2005 sem skilaði áfangaskýrslu 2007 en það starf leiddi ekki til breytinga. Áratugalangt starf þessa þriggja þingmannanefnda skilaði því engu. Ekki var gert ráð fyrir að leitað yrði til þjóðarinnar og nefndirnar allar skipaðar stafandi stjórnmálamönnum, þar sem ríkisstjórn hafði ráðandi meirihluta.

Samstaða um mannréttindi

Allmargar breytingatillögur hafa engu að síður komið fram og nokkrar breytingar verið gerðar á þeim 76 árum sem liðin eru frá stofnun lýðveldisins. Þar ber helst að nefna mannréttindakaflann sem var endurskoðaður árið 1995 í óvenjulega góðri samstöðu. Flestar tillögur hafa þó verið lagðar fram af stjórnarandstöðu, þær eru oftast umdeildar og njóta afar sjaldan meirihlutastuðnings.

Sigurður Líndal áréttar: „Breytingum á hugsunarhætti landsfólksins sem og aðstæðum og vandamálum samfélagsins verður stjórnarskrá að fylgja og bregðast við. Öðrum kosti dagar hún uppi og verður dauður bókstafur eða þeirri þjóðfélagsskipan sem hún á að vernda er hrundið með byltingu.“


II | Mótmælamenning

Munið… svo kom hrunið. Veturinn 2008 til 2009 varð bylting á Íslandi, já bylting. Hávær mótmæli og kröfufundir urðu að reglulegum viðburði í kyrrláta samfélaginu, oftast vikulega, stundum daglega. Fólkið vaknaði og opnaði munninn, tók til máls. Krafðist breytinga og vildi að einhver axlaði ábyrgð. Beittu búsáhöldum, pottum og pönnum gegn stjórnvöldum og þjóðfélagsskipulagi sem kallaði bankahrun yfir litla landið. Eitruð orð komu í stað blýkúlna.

Enginn lét lífið.

Stjórnarskránni var þó ekki beinlínis kennt um efnahagshrunið, en væntingar stórs hluta þjóðarinnar snerust um umbætur og siðbót, nýjan samfélagssáttmála. Nýtt upphaf byggt á gömlum grunni. Nýtt Ísland.

Áköll um beina þátttöku þjóðarinnar fóru að hljóma og hugmyndin um að fólkið í landinu fengi loks að rita sín eigin grunnlög með því að kalla saman þjóðkjörið stjórnlagaþing, fór á flug og náði athygli fleiri en umbótasinnaðra þingmanna.

Jóhanna tekur völdin

Jóhanna Sigurðardóttir hafði sem þingmaður, lengi kallað eftir því að þjóðin fengi aðkomu að stjórnarskrárferlinu. Að verkefninu yrði útvistað úr veislusölum valdsins, til fólksins. Áratugum saman hafði hún verið hrópandi í eyðimörkinni og fáir tekið undir kröfur um lýðræðisumbætur sem hún taldi felast í endurskoðun stjórnarskrár.

Hrunið breytti öllu. Jóhanna naut stuðnings víða, hjá samherjum og fjölbreyttum hópi fólks sem sjaldan hafði átt með henni samleið. Baklandið var öflugt og hvatti hana til að taka við keflinu og bjóða sig fram. Í skjóli trausts sem hún ein virtist njóta, tók hún áskoruninni, sigraði kosningar og varð forsætisráðherra í samfélagi þar sem miklu fleira en fjármálakerfi og seðlabanki var á hausnum. Bókstaflega allt var hrunið og verkefni stjórnvalda stjarnfræðileg.

Jóhanna lagði fram frumvarp um stjórnlagaþing í nóvember 2009. Hún taldi að sú víðtæka þjóðfélagsumræða „um nauðsyn þess að endurskoða grundvöll íslenska stjórnkerfisins í kjölfar bankahrunsins og þeirra áfalla sem íslenska efnahagskerfið hafði orðið fyrir,“ réttlætti áætlanir hennar, enda hefðu stjórnmálaflokkunum ekki tekist að ná samstöðu um nauðsynlegar breytingar, líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Jóhanna sagði að stjórnskipulagið endurspeglaði heldur ekki raunveruleika íslenskra stjórnmála, heldur væri byggt á skipulagi sem var við lýði í konungsríkinu Íslandi árið 1874.

Ný mótmælamenning verður til

Á eftirhrunsárunum urðu til margskonar fjölbreyttir hópar, verkefni og viðburðir. Margir þeirra miðuðu að því að koma á kerfisbreytingum sem viðbrögðum við falli bankanna og lifnaðarháttum útrásaráranna. Skiptar skoðanir eru þó á því hvort fullnægjandi uppgjör hafi farið fram, jafnvel þótt margt hafi áunnist í efnahagslegum og samfélagslegum skilningi. Traust til stjórnmálafólks og flokka er enn lítið, en sem betur fer njóta þó veirusérfræðingar mikils trausts þessa dagana.

Vert er að rifja upp að mótmæli hafa oft átt sér stað frá Búsáhaldabyltingunni. Ólgan hefur kraumað undir niðri og blossað upp vegna ýmissa ágreiningsmála. Nefna má Icesave-málið og tvennar þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess. Mótmælt hefur verið við þingsetningu og eldhúsdagsumræður, meira að segja á 17. júní.

Mótmæli hafa orðið vegna veiðigjalda, þjóðareignar á auðlindum, ESB-umsóknar, Lekamáls, Borgunarmáls, vanbúins heilbrigðikerfis, loftslagsbreytinga og gegn vanhæfum ríkisstjórnum. Þá hefur ítrekað verið efnt til samstöðumótmæla með hælisleitendum og flóttafólki. Ekki má heldur gleyma gjörningum og femínískum byltingum, sem og verkföllum og öðrum viðburðum vegna óróa á vinnumarkaði.

Undiralda í samfélaginu

Ótalin eru stærstu mótmælin, stóra sprengjan sem sprakk með látum í kjölfar leka Panamaskjalanna vorið 2016, og sem stundum hafa verið nefnd Rauða byltingin vegna rauðu spjaldanna sem voru notuð. Mikil undiralda hafði verið í samfélaginu um tíma og á nokkrum dögum riðaði ríkisstjórnin til falls og þingkosningar boðaðar.

Mótmælendur hafa því fundið sinn farveg og vettvang til þess að koma óánægju sinni á framfæri, með markvissari hætti en áður. Fleiri borgarar sjá ástæðu til þess að taka þátt og tengjast baráttuöflum og hreyfingum, því þátttakan hefur skipt máli í þróun ágreiningsmála. Ný mótmælamenning hefur orðið til.

Þannig má segja að einskonar samfélagsvakning hafi orðið, enda hefur allmikil og almenn gerjun orðið á flestum sviðum. Samfélagslega meðvitað fólk, sem ber hag litla lýðveldisins fyrir brjósti, hefur sprottið fram á sjónarsviðið með frjóar og skapandi hugmyndir að umbótum. Sumir þessa aktivista hafa verið áberandi í umræðunni allt frá hruni, fundið sinn farveg og barist fyrir betra samfélagi.


III | Hvar er nýja stjórnarskráin?

Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, er einn þeirra lýðræðisaktivista sem steig fram með afgerandi hætti í kjölfar hrunsins. Katrín átti sæti í stjórnlagaráði og er jafnframt formaður Stjórnarskrárfélagsins sem hefur beitt sér fyrir lýðræðisumbótum og lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar.

Líkt og Katrín, er Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands sem einnig átti sæti í stjórnlagaráði, einn þeirra hugsuða sem þjóðin leitaði til um framtíðarsýn fyrir Ísland. Í kringum hrunið tjáði hann sig talsvert um stjórnarskrármál, meðal annars með greinarskrifum.

Þorvaldur talaði fyrir því að ný stjórnarskrá skyldi rituð í umboði þjóðarinnar og án afskipta stjórnmálaflokka. Hann færði þannig rök fyrir því að best væri byrja með hreint borð eftir áföllin og vegna þeirra fjölbreyttu bresta sem fjármálakreppan afhjúpaði.

„Ein helsta ástæðan fyrir því að við þurfum að gjörbreyta stjórnarskránni er sú staðreynd að hún er samin fyrir langa löngu fyrir danskt konungsríki, og af körlum, sem þá voru þeir einu sem máttu hafa afskipti af stjórnmálum og kjósa. Við erum ekki danskt konungsríki, hér mega allir kjósa og hér búa fleiri kyn en karlar,“ segir Katrín létt í bragði, þegar blaðamaður spyr hvers vegna breyta þurfi stjórnarskrá.

„Þetta er eiginlega orðið mjög vandræðalegt fyrir okkur sem þjóð, því okkur hefur ekki tekist að klára málið. Sjálfstæðisbaráttunni er ekki lokið, því við höfum ekki enn fengið að skrifa grunnlögin okkar. Við eigum því ekki samfélagssáttmála sem við höfum samið sjálf,“ segir Katrín og heldur áfram: „Þetta hefur áhrif á sjálfsmynd þjóðarinnar en ekki síður á afstöðu okkar gagnvart lögum almennt. Lýðveldið er svo ungt, við högum okkur eins og unglingur og stundum eins og lög og reglur skipti engu máli. Þessi staða getur verið mjög slæm fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar. Þannig að þetta er stórt og óleyst mál sem við verðum að klára saman sem þjóð.“

Úrelt plagg

Katrín segir að núgildandi stjórnarskrá sé algjörlega úrelt plagg. Löngu tímabært og raunar nauðsynlegt sé að gera breytingar. „Efnislega er ástæðan sú að núgildandi stjórnarskrá er tifandi tímasprengja. Því hún er umgjörð um konungsveldi en ekki lýðræði. Orðið lýðræði kemur ekki einu sinni fyrir, ekki frekar en orðið þjóð. Ákvæði um náttúru og auðlindir eru víðs fjarri, meira að segja þingræðisreglan er ekki nefnd. En aðal ástæðan fyrir því að hún er hættuleg, er sú að hún færir forseta gríðarleg völd, líkt og hann sé einráður. Forseti Íslands hefur galnar valdheimildir.“

Hún segir: „Ef einhver sjúklega sjarmerandi popúlisti kæmist til valda, sem ekki væri annt um lýðræðið og hann teldi rétt að virkja þessar valdheimildir í þágu einhverra annarlegra hagsmuna, værum við í slæmum málum með þetta plagg. Við sem þjóð hefðum fáar, ef nokkrar varnir.“

Katrín kveðst hafa verulegar áhyggjur af stöðunni og heldur áfram: „Þetta held ég að sé raunverulegt vandamál. Við sjáum að víða í löndunum í kringum okkur eru popúlistar að komast til valda. Hættan er sérstaklega mikil á svona undarlegum tímum eins og núna, þegar heimsfaraldur geisar. Þá þarf svo lítið til og stutt í að lýðræðinu og mannréttindum sé fórnað. Hættan er sú að allt fari á versta veg.“

Hún segist telja að grunnlögin eigi að vernda samfélög og borgarana fyrir slíkum áföllum. Þau eigi að tryggja réttindi og að valdheimildir ráðamanna séu skýrar, en ekki síður hvar ábyrgðin liggi, fari eitthvað úrskeiðis.

Blaðamaður spyr hvers vegna standi á því að fólk sé ekki betur upplýst um þessa hættu? „Það er því miður ekki mikil fræðsla um stjórnarskrármál í íslensku menntakerfi, enda ekki spennandi efni fyrir ungt fólk,“ viðurkennir Katrín.

„Engu að síður er þetta afar mikilvægt mál og við þurfum að stórefla menntun og skilning á lýðræðismálum almennt. Þetta er samfélagssáttmálinn okkar sem geymir leikreglur um það hvernig og hvers vegna við ætlum að búa hér saman, en einnig framtíðarsýn um það hvert við ætlum að fara. Sameiginleg sýn og vegvísir um það hvert við viljum stefna. Okkur sem þjóð sárvantar þennan sameiginlega grundvöll,“ segir Katrín og leggur ríka áherslu á mál sitt.

Hreint borð

Þorvaldur segir að þörfin fyrir nýja stjórnarskrá hafi öðrum þræði helgast af nauðsyn þess að byrja upp á nýtt, frá grunni: „Stjórnmálastéttin kallaði hrunið yfir landið ásamt meðreiðarsveinum sínum í bönkum og útrásarfyrirtækjum eins og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis lýsir glöggt.“ Hann segir að „binda þurfi gagngerar breytingar á stjórnskipaninni í stjórnarskrá og nota þannig tækifærið til að senda umheiminum skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði.“

Hann tekur undir með Katrínu um að tilgangur stjórnarskrár sé að vernda venjulegt fólk fyrir afglöpum og ofríki stjórnmálamanna. Með slíkum sáttmála reisi þjóðin þær mikilvægu girðingar sem eigi að vernda almenning frá yfirvöldum. Þess vegna eigi fólkið sjálft að setja stjórnarskrá en ekki stjórnmálamennirnir. Slíku plaggi sé beinlínis ætlað að binda hendur stjórnvalda með því að kveða á um valdmörk og mótvægi. Þjóðin búi sér þannig til lögvarðar leikreglur handa sjálfri sér.

Þorvaldur segir að þjóðin tjái sig í raun með stjórnarskránni og þess vegna eigi textinn að vera í fyrstu persónu fleirtölu: „Það er þjóðin, sem talar. Þjóð, sem hefur orðið fyrir þungbærum skaða af völdum stjórnmálamanna og annarra, þarf nýja stjórnarskrá til að girða fyrir frekari afglöp og ofríki af því tagi, sem ollu skaðanum,“ segir prófessorinn.

Rannsóknarskýrslan og ESB-umsókn kalla á breytingar

Að loknum þingkosningum vorið 2009 sammæltust þáverandi ríkisstjórnarflokkar um umgjörð og ferli stjórnarskrárbreytinga. Um það var raunar lítill ágreiningur á Alþingi fyrst um sinn eftir hrun. Í kjölfar útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna, sem birtist í apríl 2010, varð ákallið um endurskoðun stjórnarskrár sífellt öflugra úti í samfélaginu. Rannsóknarnefndin mælti afdráttarlaust með breytingum á stjórnarskránni vegna hrunsins og styrkti það stefnu stjórnarflokkanna.

Umræðan um stjórnarskrána tók að sumu leyti mið af þeirri skoðun, sem var nokkuð útbreidd meðal almennings, að í ljósi yfirstandandi efnahagsþrenginga væri rétt að sækja um aðild að Evrópusambandinu (ESB). Margir töldu og telja enn, að gildandi stjórnarskrá heimili ekki slíkt afsal valdheimilda sem EES-samningurinn og full aðild að ESB kallar á. Breyta þurfi stjórnarskrá, einkum ef sótt er um fulla aðild.

Aðrir telja, líkt og Þorvaldur Gylfason hefur fært rök fyrir, að samþykkt Alþingis myndi duga, en engu að síður væri rétt að bera aðildarsamning undir bindandi þjóðaratkvæði áður en aðild yrði að veruleika. Samkomulag um aðildarumsókn að ESB tókst á milli stjórnarflokkanna eftir kosningarnar 2009, vegferð sem síðar átti eftir að enda í djúpum skotgröfum flokkastjórnmála og sérhagsmuna.

Stjórnarskrárstund

Katrín Oddsdóttir segir: „Krafan um nýja stjórnarskrá var ekki endilega sú háværasta í hruninu sjálfu og þeirri orðræðu upphaflega. En þegar frá leið fór fólkið að ræða betur saman og þá fóru böndin að berast að innihaldi stjórnarskrárinnar og hvernig við gætum bætt grunnreglurnar sem við byggjum aðra löggjöf á.“

„Þarna myndaðist svokölluð stjórnarskrárstund og fólk vildi einbeita sér að því að finna leiðir, svo þetta gæti ekki gerst aftur. Finna út hvert við vildum stefna. Stór hluti þjóðarinnar vaknaði upp á sama tíma og var glaðvakandi gagnvart hlutum sem við alla jafna felum kjörnum fulltrúum. Þetta var einstakur tími,“ segir Katrín og minnist atburða frá þessum sögulega tíma eins og þeir hafi gerst í gær.

„Það má kannski líkja þessu við að öll ljós kvikni í blokkinni á sama tíma um miðja nótt og að íbúarnir séu allt í einu tilbúnir að mæta á húsfund, taka til í garðinum og ryksuga á sama tíma. Líkt og að glugginn galopnist í ákveðinn tíma og nýtt tækifæri gefist. Það má kalla stjórnarskrárstund. En, því miður lokaðist glugginn okkar áður en við náðum að lögfesta nýju stjórnarskrána. Það er samt enginn vafi í mínum huga að þetta mun takast á endanum, glugginn mun opnast aftur,“ segir Katrín ákveðin.

Heildarendurskoðun mikilvæg

Þorvaldur var leiðandi í umræðunni um nauðsyn þess að stjórnlagaþing yrði kallað saman. Hann taldi rétt að þjóðin fengi að ljúka verkinu sem stjórnvöld hefðu lofað á Þingvöllum 1944. Enda væri gildandi stjórnarskrá bráðabirgðaplagg. Mikilvægt væri að skerpa á þrískiptingu valdsins, endurskoða valdmörk og ábyrgð forseta Íslands og uppfæra aðra kafla í samræmi við nútímann. Einna mikilvægast væri þó að innleiða ákvæði sem kveði skýrt á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum.

Í grein þar sem hann tilkynnir framboð til stjórnlagaþings segir: „Valdi forsetans er ætlað að treysta valdmörk og mótvægi framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds í samræmi við hugmyndina um þrískiptingu valds innan ramma þingræðisins. Málskotsréttur forsetans er að vísu skýr, en hann þarf að rýmka, svo að forsetinn geti vísað til þjóðaratkvæðis ekki aðeins frumvörpum, sem þingið samþykkir, heldur einnig frumvörpum sem þingið hafnar. Það væri nýjung.“

Þorvaldur segir að hrunið 2008 hafi þó ekki stafað af stjórnarskránni og henni verði ekki kennt um. Engu að síður hefði þurft að girða fyrir ofríki framkvæmdavaldsins og langan aðdraganda hrunsins. Stjórnmálastéttin hafi sýnt stjórnarskránni tómlæti og litla virðingu og stjórnarskrárnefndir setið að störfum án þess að skila árangri.

„Þó tók steininn úr, þegar stjórnmálamenn færðu útvegsmönnum fyrst ókeypis aðgang að sameignarauðlindinni í hafinu umhverfis Ísland með upptöku kvótakerfisins og tóku síðan, þegar allt var um garð gengið, að tala um nauðsyn þess að færa sameign þjóðarinnar á auðlindum inn í stjórnarskrána. Tímasetningin segir sitt,“ áréttar Þorvaldur.


IV | Þjóðkjörið stjórnlagaþing

Lög um stjórnlagaþing voru samþykkt 16. júní 2010, þar sem kveðið er á um verkefni stjórnlagaþings. Stjórnlaganefnd var kjörin í kjölfarið og fékk Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður stofnunar Sæmundar fróða, það verkefni að leiða nefndina.

Stjórnlaganefnd var falið að boða til þjóðfundar; umræðuvettvangs þar sem kallað yrði eftir sjónarmiðum almennings um málið. Eitt þúsund almennir borgarar skyldu ræða stjórnarskrá framtíðarinnar, gildi hennar, efnistök og innihald. Nefndin átti svo að vinna úr þessum upplýsingum, safna saman mikilvægum gögnum um stjórnarskrármálefni og leggja fram valkosti um breytingar á stjórnarskrá.

Við samþykkt laganna töldu margir að ferlið væri í traustum farvegi eftir allnokkur átök á þinginu um tímaramma, form og ferli. Alþingi hefði loks rutt veginn og reist þær vörður sem nauðsynlegar væru á leiðinni að lögfestingu nýrrar stjórnarskrár. Fyrir umbótasinna var útlitið því bjart, um stund.

Tafaleikir Sjálfstæðisflokksins

Sem fyrr voru það Sjálfstæðismenn sem leituðust við að tefja ferlið, nú með því að halda fast í kröfu um að þjóðfundur yrði kallaður saman áður en stjórnlagaþing yrði kjörið. Hugmyndin um þjóðfund var þess eðlis að flestir gátu ekki annað en fallist á hana og fögnuðu í raun, en þjóðfundur á þessum tímapuntki var engu að síður leið til þess að lengja ferlið. Sjálfstæðismenn voru ýmist fjarverandi eða sátu hjá við afgreiðslu málsins, sem gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Í ljósi þess sem síðar varð, þegar ný stjórnarskrá var hársbreidd frá því að hljóta brautargengi á Alþingi, en lenti í hakkavél málþófs og tafaleikja Sjálfstæðisflokksins, er vert að rifja upp baráttu forystufólks sama Sjálfstæðisflokks fyrir nýrri stjórnarskrá við lýðveldisstofnun. Þá börðust Sjálfstæðismenn fyrir því að færa valdið frá konungi og til þings og þjóðar. En svo, eftir áratugi við setu á valdastólum og í ríkisstjórn, mest allt lýðræðistímabilið, voru það engu að síður fyrst og fremst Sjálfstæðismenn sem stöðvuðu framgang málsins á Alþingi vorið 2013, þó fleira hafi komið til.

En Sjálfstæðismenn voru þó ekki einir um að vilja nýja stjórnarskrá árið 1944, heldur var allgóð samstaða meðal forsprakka allra flokka. Hremmingar stjórnarskrárinnar í gegnum áratugina hafa því verið af ýmsum toga. En pólitísk hentistefna, íhaldssemi og sérhagsmunir þeirra sem hagnast á óbreyttu ástandi, hafa orðið til þess að loforðið til þjóðarinnar frá árinu 1944 hefur margoft verið svikið.

Lýðræðisveisla í Höllinni

Þjóðfundurinn var haldinn í Laugardalshöll þann 6. nóvember 2010 og þótti takast einstaklega vel. Þeir borgarar sem valdir voru af handahófi með slembiúrtaki úr þjóðskrá, komu vel nestaðir eftir þá miklu umræðu og gerjun sem hafði verið frá hruni; borgarafundir, ráðstefnur, námskeið og framtíðarþing á vegum opinberra aðila sem og frjálsra félagasamtaka, höfðu farið fram víða um land, auk þess sem samtal um stöðuna og leiðir til úrbóta, voru daglegt brauð á vettvangi fjölmiðla.

Fólkið á fundinum hafði því margt fram að færa um framtíðarskipulag samfélagsins, ekki síður en sérfræðingarnir sem tóku talsvert pláss í umræðunni. Þátttakendur voru tæplega eitt þúsund og í endurmati fundarmanna kom fram almenn ánægja með fundinn; 97% fannst fundarformið gott, 95% fannst fundurinn ganga vel, 75% töldu framkvæmd hans til fyrirmyndar og 93% töldu að niðurstöðurnar myndu gagnast stjórnlagaþinginu, líkt og fram kemur í skýrslu stjórnlaganefndar.

Þarna fór fram merkileg lýðræðistilraun og sumir kölluðu verkefnið lýðræðisveislu. Þar fengu fulltrúar þjóðarinnar að segja sína skoðun á innihaldi æðstu laga landsins og leggja fram hugmyndir um nýtt Ísland. Þátttakendur höfðu undirbúið sig vel, einn þó betur en aðrir; hann hafði lesið þjóðskrána og símaskrána áður en hann áttaði sig á því að það var auðvitað stjórnarskáin sem málið snerist um. Einn vel upplýstur…

Loksins hleypt að borðinu

Í aðfaraorðum skýrslu stjórnarskrárnefndar segir að íslenskri þjóð hafi í fyrsta sinn gefist tækifæri til að hafa bein áhrif á endurskoðun eigin stjórnarskrár. Tryggja átti „aðkomu þjóðarinnar sjálfrar að mótum grundvallarreglu um íslenska stjórnskipan og þjóðfélagsgerð.“ Þar segir ennfremur að brýn þörf sé á endurskoðun, því sumar greinar séu „börn síns tíma, aðrar óskýrar og ýmsar greinar þarfnist viðbóta, vegna þess að margt er ósagt um mikilvæg atriði stjórnskipunarinnar.“ Skýra þurfi sumt og skerpa á öðru, sem og taka á ýmsum nýmælum.

„Stjórnarskrá er í eðli sínu grundvallarlög sem öll önnur löggjöf byggir á og ber að virða. Hún þarf því að vera skýr, greinileg og auðskiljanleg, og taka af tvímæli um skipan valds og stjórnsýslu. Þannig er henni ætlað að tryggja þjóðina gegn misbeitingu valds. Hver þjóðfélagsþegn á að geta haft hana að leiðarljósi við skilning á stjórnskipan og séð þar rétt sinn og skyldur,“ segir í lok aðfaraorðanna.

Kosningar til stjórnlagaþings fóru fram þann 27. nóvember 2010. Alls voru 522 einstaklingar í kjöri, 70% karlar og 30% konur. Tæplega 84 þúsund kjósendur mættu á kjörstað og völdu þá 25 fulltrúa sem sitja skyldu á þinginu, 15 karla og 10 konur. Kosningaþátttaka var um 36%.

Hæstiréttur beitir valdi

Vonir þeirra sem glöddust yfir velheppnuðum þjóðfundi og fögnuðu framgangi hins sögulega stjórnlagaþings, brustu með látum þegar Hæstiréttur (sem úrskurðarnefnd vegna þriggja kæra sem bárust) tók þá afdrifaríku ákvörðun að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings. Að mati Hæstaréttar voru á þeim verulegir annmarkar. Ekki var þó sýnt fram á að annmarkarnir hefðu haft áhrif á niðurstöður, enda ómögulegt að sanna slíkt. Hæstiréttur gekk því ljóslega gegn meðalhófi.

Úrskurðurinn var því verulegt sjokk enda höfðu almennar kosningar aldrei verið ógildar hérlendis, þótt hnökrar hefðu verið á framkvæmd. Varla er hægt að meta það öðruvísi en þarna hafi dómarar fallið í þá gryfju að blanda sér í ferlið á pólitískum forsendum. Líkurnar eru að minnsta kosti töluverðar á því að dómarar hafi verið andsnúnir stjórnlagaþingi og fallið fyrir þeirri freistingu að reyna að tefja ferlið.

Það voru heldur ekki áhyggjur af framkvæmd lýðræðisins sem veittu kærendum innblástur. Markmiðið var pólítískt og þeir vildu eyðileggja málið. Fram kom í frétt RÚV þegar úrskurðurinn lá fyrir að einn kærenda, Skafti Harðarson, væri ánægður með niðurstöðuna. Þar opinberaði hann ásetning sinn og annarra sem studdu kæruna, líklega óviljandi: „Heppilegast væri náttúrlega að flauta alla þessa vitleysu af og þennan fjáraustur á tímum þegar við höfum nóg annað við peningana að gera. En að öðrum kosti gætu þeir haldið áfram og efnt til annarra kosninga, sem ég held að væri nú bara til að bíta höfuðið af skömminni,“ sagði Skafti.

Sorg og harka

Vonbrigði Jóhönnu Sigurðardóttur leyndu sér ekki: „Niðurstaða Hæstaréttar hlýtur að valda okkur öllum vonbrigðum enda nær einróma niðurstaða þingsins að efna til stjórnlagaþings. Allir flokkar studdu lögin einum rómi, nema Sjálfstæðisflokkurinn. Rétt er að hafa í huga að ekkert hefur komið upp sem raunverulegt vandamál í framkvæmdinni. Enginn hefur talið að leyndin hafi verið rofin í raun. Enginn hefur haldið því fram að kjörkassar hafi verið opnaðir og ekki er vitað um nein tilvik þess að umboðsmönnum frambjóðenda hafi verið neitað um að vera viðstaddir talningu.“

Jóhanna sagði ennfremur: „Menn eiga ekki að reyna að nýta sér þessa uppákomu til að slá pólitískar keilur. Stjórnlagaþingið var tæki þjóðarinnar til að móta nýja stjórnarskrá og stjórnlagaþingið tökum við ekki frá þjóðinni.“

Umræður á Alþingi voru oft óvægnar á eftirhrunsárunum. Steininn tók þó úr í þessu máli, þar sem andstæðingar létu einskis ófreistað við að koma höggi á Jóhönnu og áætlanir hennar um að endurskoða stjórnarskrána. Jafnvel í þeim tilgangi að fella önnur þingmál sem voru til umræðu og gengu atkvæði gjarnan kaupum og sölum. Allt var þannig reynt til þess að koma ríkisstjórninni í vandræði. Svo harkalega var sótt að forsætisráðherra þegar hún leitaðist við að kryfja málið í ræðustól þingsins, að á öðrum tímum hefði slíkt áhlaup verið kallað einelti, jafnvel ofbeldi.

Jóhanna ítrekaði mikilvægi málsins: „Stjórnlagaþing hefur alltaf verið eitur í beinum íhaldsmanna. Mér finnst það dapurlegt að hér sé talað um tilraunastarfsemi með stjórnarskrána. Hvers vegna var stjórnlagaþing sett á laggirnar? […] Þingið hefur áratugum saman, oft með íhaldið í broddi fylkingar, því það hefur verið allt of lengi hér við stjórnvölinn, gefist upp á að breyta stjórnarskránni. Þetta voru helstu lýðræðisumbætur sem fólkið kallaði á eftir hrun, það var stjórnlagaþing.“

Undir linnulausum frammíköllum og háreysti í þingsal sagði Jóhanna vígamóð: „Ég veit að íhaldið er órólegt hérna af því þeir vilja ekki stjórnlagaþing, þeir eru skíthræddir um að þá verði komin ákvæði sem þjóðin hefur lengi kallað eftir og barist fyrir, sem eru að auðlindirnar verði í þjóðareign.“


V | Sumar samhljóms og söngva

Eftir vangaveltur á Alþingi um það hvernig best væri að bregðast við úrskurði Hæstaréttar, var ákveðið að skipa stjórnlagaráð með þingsályktun 24. mars 2011.

Ráðið var sett formlega þann 6. apríl og falið sambærilegt hlutverk og stjórnlagaþingi hafði verið ætlað; að gera tillögur að endurbættum stjórnarskipunarlögum og afhenda Alþingi til þinglegrar meðferðar.

Í ávarpi á fyrsta fundi sagði aldursforseti ráðsins, Ómar Ragnarsson: „Um þennan sal eiga að blása ferskir vindar nýrra tíma, víðsýni að ráða ríkjum. Í þessum sal munum við heyra sögu stjórnarbóta allt frá Gulaþingi til þessa dags, þegar við ætlum að vinna verk sem ein kynslóð færir kynslóðunum, sem á eftir koma. Við lítum á okkur sem hlekk í keðju kynslóðanna og framvindu sögunnar.“

Ráðið hafði þó áður komið saman á undirbúnings- og fræðslufundum og stundað hópefli. Starfið hafði því hafist óformlega, en hlé gert eftir úrskurð Hæstaréttar. Ráðið hélt alls nítján formlega fundi sem sýndir voru beint á netinu og opnir almenningi, sem og fjölda nefndarfunda. Eftir því var tekið hversu vel fulltrúar störfuðu saman og að umræður einkenndust af kurteisi og virðingu fyrir viðfangsefninu. Hverjum fundi lauk með samsöng, þeim fyrsta á Öxar við ána.

Töluvert samráð var viðhaft við áhugasama borgara sem gátu fylgst með tillögum á vefsvæði ráðsins, sent inn hugmyndir eða tekið þátt í umræðum um einstök ákvæði. Á heimsvísu hafði texti stjórnarskrár aldrei áður verið saminn með svo gagnsæjum og gagnvirkum hætti. Ráðið leitaði því leiðsagnar með þessum hætti og ráðfærði sig við almenna borgara, sem og sérfræðinga. 323 formleg erindi bárust og rösklega 3600 skriflegar athugasemdir.

Er Alþingi treystandi?

Þorvaldur Gylfason segir að hættan sem stjórnlagaráð hafi staðið frammi fyrir, hafi verið sú að góður ásetningur yrði undir fyrir óttablandinni valdhlýðni. Það segir hann vera landlæga tilfinningu margra sem hafi starfað að kerfisbreytingum um áratugi. Þá djúpu gryfju hafi stjórnlagaráð ekki mátt falla í, eftir allt sem á undan var gengið. Afdráttarlausar leiðbeiningar hafi birst í skýrslu Rannsóknarnefndar og á þjóðfundi. Tillögur í skýrslu stjórnlaganefndar hefðu líka verið skýrar og ekki ætlað að vera til skrauts. Breyta þyrfti grunnlögunum í samræmi við þennan skýra og einlæga vilja. Hann segir stjórnlagaráð hafa staðist þetta próf, því frumvarpið spegli niðurstöður þjóðfundar og hugmyndir stjórnlaganefndar mjög vel.

Þorvaldur hafði þó alltaf efasemdir um að Alþingi væri treystandi til að grípa boltann. Áratugum saman hafi þingið vanrækt endurskoðun og ekki verið í stakk búið til að koma sér saman um breytingar á stjórnarskránni. Hann segir að þingið sé heldur ekki vel til þess fallið, og í raun vanhæft, til þess að fjalla um tillögur að breytingum á Alþingi og þingstörfum. Hann telur engu að síður að aðferðin hafi verið rétt og í framhaldinu hafi verið rökrétt að bera frumvarpið undir þjóðaratkvæði, en þingið hafi þó gert mistök með því að skipta sér efnislega af tillögunum í miðju ferlinu.

Ákvörðun Alþingis, að fela stjórnlagaráði að semja heildstætt frumvarp, var því rétt að mati Þorvaldar, einkum af tveimur ástæðum; „Í fyrsta lagi hefur Alþingi ekki getað komið sér saman um neina verulega endurskoðun stjórnarskrárinnar, þótt hún standist hvorki kall né kröfur tímans. Í annan stað fer ekki vel á því, að Alþingi skipti sér efnislega af stjórnarskránni, þar eð hún fjallar auk annars um Alþingi og setur því rammar skorður til að vernda almenning fyrir stjórnvöldum.“ Hann tekur einnig fram að þess hafi mátt vænta að sumum sem nýrri stjórnarskrá sé ætlað að halda í skefjum, muni aldrei fella sig vel við hana. Þetta verði þingheimur að huga að.

Tilboð til þjóðarinnar

„Stjórnlagaráð býðst til að gera Alþingi og þjóðinni tilboð um stjórnskipulegan grundvöll að opnara og réttlátara þjóðfélagi, nýja stjórnarskrá gegn flokksræði og forréttindum í samræði við niðurstöður þjóðfundarins 2010,” sagði Þorvaldur þegar starf stjórnlagaráðs var á lokametrunum og útlit fyrir að ráðið næði að samþykkja heildstætt frumvarp. Hann sagði að ýmis merk nýmæli væri að finna í skjalinu, fyrirheit um gagngerar breytingar á stjórnskipan, sumar í samræmi við ábendingar Rannsóknarnefndar Alþingis. Þráðurinn frá hruninu var því enn óslitinn.

Miðvikudaginn 27. júlí samþykktu allir 25 fulltrúar stjórnlagaráðs frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Í kjölfarið var samþykkt tillaga um að Alþingi leyfði þjóðinni að greiða atkvæði um skjalið til samþykktar eða synjunar. Nær öll 114 ákvæði frumvarpsins voru samþykkt án mótatkvæða og skjalið í heild samþykkt samhljóða með öllum greiddum atkvæðum. Stjórnlagaráð hafði þar með náð sátt um textann og talað einum rómi fyrir réttarbótum og breytingum á stjórnskipaninni.


VI | Vald Alþingis

Fullbúið frumvarp að nýrri stjórnarskrá, brakandi ferskt úr smiðju stjórnlagaráðs, var afhent Alþingi þann 29. júlí 2011 í Iðnó við Tjörnina. Þáverandi forseti þingsins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sem síðar átti eftir að hafa afgerandi áhrif á örlög skjalsins, tók við nýju stjórnarskránni fyrir hönd þingheims.

Valdið var Alþingis.

Við afhendinguna kom fram að leiðarstefin í störfum ráðsins voru einkum þrjú; valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Leitast var við að auka valddreifingu með aðgreiningu valdsþátta og kveðið á um aukna þátttöku almennings að ákvörðunum. Áhersla var lögð á skýra framsetningu, bæði hvað varðar málfar og uppbyggingu, svo augljóst væri hver færi með vald og hver bæri ábyrgð í stjórnskipaninni.

Teningunum kastað

Boltinn var þar með hjá Alþingi. Engu að síður hafði Þorvaldur uppi varnaðarorð og óttaðist að þingið myndi ekki bera frumvarpið óbreytt undir þjóðina, heldur gera á því efnislegar breytingar. Hann sagði: „Alþingi þarf að ljúka málinu eins og til var stofnað með því að leggja frumvarp stjórnlagaráðs í dóm þjóðarinnar að loknum rækilegum rökræðum um frumvarpið. […] Telji Alþingismenn frumvarp stjórnlagaráðs lakara en gildandi stjórnarskrá, geta þeir reynt að vinna þeirri skoðun fylgi á jafnræðisgrundvelli í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Hann taldi það ólýðræðislegt ef þingið ætlaði svipta þjóðina rétti til að greiða atkvæði um frumvarpið og varaði við því að slíkt gæti vakið hörð viðbrögð: „Ég lýsi eftir stuðningi fólksins í landinu við frumvarp stjórnlagaráðs og heiti á Alþingi að efna fyrri ásetning um að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um frumvarpið til samþykktar eða synjunar.“

„Hugsum okkur nú, að Alþingi félli frá fyrirheiti forsætisráðherra og annarra þingmanna um þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs og léti einfaldan meirihluta Alþingis ljúka málinu eða svæfa það, án þess að þjóðin fengi neitt um það að segja,“ sagði Þorvaldur og áréttaði að slíkar æfingar yrðu gróf svik. Engu að síður hafi mátt skilja á sumum þingmönnum að þeir telji að þingið mætti og ætti að útkljá málið upp á sitt einsdæmi. Hann sagði: „Alþingismenn þurfa að viðurkenna, að Alþingi sækir vald sitt til þjóðarinnar, svo sem skýrt er kveðið á um í frumvarpi stjórnlagaráðs, og Alþingi getur því skilað valdi sínu til þjóðarinnar með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um tiltekin mál.“ Alþingi hafi þegar ákveðið að skila til þjóðarinnar valdi sínu til að endurskoða stjórnarskrá, fela öðrum verkið.

„Nú er of seint fyrir Alþingi að skipta um skoðun og hætta við allt saman. Málið er komið lengra en svo, að sú leið sé fær,“ sagði Þorvaldur og bætti því við að skoðanakönnun sýndi að 75% þjóðarinnar vildu fá að kjósa um frumvarpið óbreytt. Teningunum hafi verið kastað.

Róið fyrir hverja vík

Alþingi hóf á sama tíma formlega meðferð málsins, sem var á forræði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og formanns hennar, Valgerðar Bjarnadóttur, þingkonu. Nefndin átti eftir að halda alls 119 fundi um málið. Í raun má segja að hún hafi haldið eins vel á málinu og kostur var við aðstæðurnar sem uppi voru á þinginu. Nefndin kallaði sérfræðinga að borðinu vegna svokallaðs álagsprófs, þar sem markmiðið var að grandskoða ákvæði frumvarpsins – róa fyrir hverja vík.

Álagsprófið reyndist erfitt og dróst á langinn. Þorvaldur hafði enn áhyggjur af því að verkefnið væri þinginu ofvaxið, ekki síst vegna þeirra freistinga sem þingheimur stóð frammi fyrir. Hann taldi meðal annars að tillögurnar um breytingar á kosningalögum gætu freistað þingmanna og þeir færu að skipta sér verulega af efni frumvarpsins.

Önnur fresting tengdist kvótanum: „Allir vita, að bankarnir jusu fé í stjórnmálamenn og flokka fram að hruni til að kaupa sér frið; þetta stendur skýrum stöfum í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Allir mega einnig vita, að útvegsfyrirtæki hljóta með líku lagi að hafa ausið fé í stjórnmálamenn og flokka til að þakka þeim fyrir kvótann, þótt engin rannsóknarnefnd hafi enn verið skipuð til að kortleggja þá fyrirgreiðslu.“

Boðflennur í veislusölum

Þorvaldur segir að í þessu ljósi verði að skoða afstöðu sumra þingmanna gagnvart auðlindaákvæðinu, sem kveði á um auðlindir í þjóðareigu og úthlutun aflaheimilda á jafnræðisgrundvelli gegn fullu gjaldi: „Nær væri, að þeir segðu nú við útvegsmenn: Málið er ekki lengur í okkar höndum, kjósendur þurfa að leiða málið til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og Alþingi lagði upp með.“

Þriðja freistingin sem Þorvaldur telur að þingmenn hafi þurft að standast er líklega sú sem hefur staðið málinu fyrir þrifum allar götur síðan; „sjálfsmynd og metnaður Alþingismanna, sem sumir virðast ekki vilja viðurkenna rétt annarra en þeirra sjálfra til að setja landinu stjórnarskrá.“

Hann segir að sumir líti því á stjórnlagaráð sem boðflennu í veislusölum valdsins. Þeir horfi framhjá þeirri staðreynd að þetta sama Alþingi hafi staðið fyrir kosningu til stjórnlagaþings, skipað stjórnlagaráð og þar með falið utanaðkomandi aðila, þjóðkjörnum fulltrúum, að endurskoða æðstu lög landsins. Ekki verði aftur snúið.

Andstaða Sjálfstæðisflokksins

Mánuðir liðu og reynt var að tefja málið við hverjar krossgötur í formlegri meðferð Alþingis. Fljótlega varð ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn var andsnúinn frumvarpinu og hyggðist gera allt til þess að leggja stein í götu þess innan þings sem utan. Flestir þingmenn Framsóknarflokksins voru á sama máli, enda í stjórnarandstöðu og vildu fella ríkisstjórnina. Innan stjórnarinnar heyrðust einnig efasemdaraddir og einstaka þingmenn stjórnarflokkanna voru á bandi stjórnarandstöðu í sumum þingmálum.

Þetta gerði róðurinn þyngri en ella og meirihluti ríkisstjórnarinnar hékk í raun á bláþræði og á fáeinum atkvæðum. Við slíkar aðstæður er afar erfitt að koma umdeildum og stórum málum í gegum hefðbundið ferli á Alþingi.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2011 hafnaði frumvarpinu með afdráttarlausum hætti og kallaði afrakstur stjórnlagaráðs „ábyrgðarlausa tilraun ríkisstjórnarinnar til að kollvarpa núgildandi stjórnarskrá.“ Þar var Alþingi jafnframt sakað um að hafa vegið að sjálfstæði dómsstóla með því að skipa 25 fulltrúa í stjórnlagaráð eftir að Hæstiréttur hafði ógilt kosningar til stjórnlagaþings.

Fundurinn lagði áherslu á að engar breytingar yrðu gerðar á stjórnarskrá nema þær sem víðtæk sátt næðist um, en átti þar líklega við að engar breytingar skyldu gerðar nema með samþykki flokksins. Engar efnislegar athugasemdir voru gerðar við texta frumvarpsins og efnisvinna stjórnlagaráðs því hunsuð. Þessi afstaða landsfundar gaf tóninn um það sem síðar kom, enda tilgangurinn ekki að taka þátt í uppbyggilegu samtali, heldur reyna að fella málið og ríkisstjórnina með öllum tiltækum ráðum.

Fullkomin forherðing

„Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætlast til, að honum verði með innan við þriðjung þingmanna fengið neitunarvald við afgreiðslu frumvarps stjórnlagaráðs á Alþingi,“ skrifaði Þorvaldur, furðulostinn eftir ályktun landsfundarins.

„Enginn sjálfstæðismaður hefur enn axlað ábyrgð á hruni bankanna eða beðist afsökunar. […] Ábyrgðarleysi Sjálfstæðisflokksins er algert, forherðingin fullkomin,“ ritaði Þorvaldur og hélt áfram: „Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á hruninu eins og fram kemur í skýrslu RNA í níu bindum. […] Sjálfstæðisflokkurinn telur sig þess umkominn að saka ríkisstjórnina um ábyrgðarleysi og leggjast gegn endurskoðun stjórnarskrárinnar þvert á loforð forystumanna flokksins strax 1944. Þá um haustið tók nýsköpunarstjórnin við völdum um forsæti Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, og lofaði róttækum breytingum á stjórnarskránni „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar.“ Ekkert gerðist.“

Þorvaldur sagðist gefa sér það að ríkisstjórnin myndi ekki hlaupast undan eigin merkjum af tillitssemi við Sjálfstæðisflokkinn, enda hafi markmiðin verið skýr í stjórnarsáttmálanum: „Því verður ekki trúað að óreyndu, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur svíkist aftan að kjósendum og veiti Sjálfstæðisflokknum færi á að koma í veg fyrir, að þjóðin fái að greiða atkvæði um frumvarp stjórnlagaráðs til samþykktar eða synjunar. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki Ísland,“ áminnti Þorvaldur lesendur DV í lok nóvember árið 2011.

Hörð gagnrýni og endurmat

Þegar leið á veturinn fóru ýmsir aðilar utan þings, sem ekki voru beinir þátttakendur í starfi stjórnlagaráðs, að tjá sig opinberlega um efnisatriði frumvarpsins. Forseti Íslands gaf tóninn í þingsetningarræðu þar sem hann gagnrýndi frumvarpið. Ýmsir sjálfskipaðir sérfræðingar fóru mikinn og höfðu allt á hornum sér gagnvart einstökum ákvæðum frumvarpsins. Segja má að þung áróðursherferð hafi þar með hafist gegn nýju stjórnarskránni, sem að mörgu leyti stendur enn.

Sigurður Líndal var einn þeirra sem var ekki sáttur við vinnu stjórnlagaráðs og tjáði sig um það á opinberum vettvangi. Hann virtist einnig finna þörf fyrir að hnýta í ferlið við hvert fótmál, þó vinnan hefði í raun gengið vonum framar og ráðið skilað samhljóða niðurstöðu eftir opið og gagnsætt vinnuferli: „Mér finnst þetta vera allsherjar handarbakarvinna og í raun algjört klúður,“ sagði prófessorinn.

Alþingi kallaði stjórnlagaráð til fjögurra daga endurmatsfundar í mars 2012, eftir efnislega yfirferð á um sjö mánaða tímabili. Álitamál höfðu komið upp og nokkrar spurningar sem Alþingi vildi beina til stjórnlagaráðs. Að sögn Þorvaldar var þeim auðsvarað og stjórnlagaráð stóð við frumvarpið óbreytt. Allt virtist loks benda til þess að málið væri í föstum farvegi innan þingsins.

Þorvaldur var þó ekki sannfærður og spurði hvort klukkan gæti stöðvast eða farvegurinn færst til: „Hvað þyrfti til þess? Stjórnarandstaðan gæti reynt að spilla ferlinu með málþófi, þ.e. með því að setja á endalausar ræður til þess að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins í tæka tíð. […] Ég leyfi mér að efast um, að stjórnarandstæðingar áræði að grípa til málþófs. Þeir þurfa eins og við hin að virða leikreglur lýðræðisins og lúta niðurstöðunni.“

Baráttan átti þó enn eftir að harðna. Jafnvel þótt Sjálfstæðisflokknum tækist ekki að koma í veg fyrir að frumvarpið færi í þjóðaratkvæði, tókst þingmönnum flokksins að tefja afgreiðsluna þannig að ekki varð mögulegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum sumarið eftir. Þjóðin varð því að bíða til haustins 2012 með sinn dóm, í meira en heilt ár eftir að frumvarpið var afhent forseta Alþingis. Tafaleikirnir og málþófið var þó rétt að byrja og þingmenn Sjálfstæðisflokksins áttu síðar eftir að leggja fleiri og þyngri steina í götu nýju stjórnarskrárinnar.

Íhaldssemi lögmanna

Aðspurð um hvað hún telji að geti skýrt þessa afgerandi andstöðu við frumvarpið, segir Katrín: „Ég held því fram að ákveðinn hluti af þessari tregðu, sem við erum að upplifa gagnvart nýju stjórnarskránni, sé íhaldssemi lögmanna. Þeir vilja ekki leggja neitt á sig til að tileinka sér nýja umgjörð og texta eða læra nýjar reglur. Hafa jafnvel ekki kynnt sér málið nægilega vel eða eru bara á móti þessu af prinsippástæðum og af því að þeir vilja ekki leggja vinnu í það að kynna sér nýtt plagg.“

Hún heldur áfram: „Þetta er líka einhver hræðsla við hið óþekkta, af ástæðulausu. Því grunnurinn er að miklu leyti tekinn beint úr núgildandi stjórnarskrá. Það er bara búið að færa plaggið yfir á mannamál, gera textann skiljanlegri, bæta inn köflum sem eru í samræmi við raunveruleikann og tryggja þau sjálfsögðu réttindi sem langflestir eru sammála um í samtímanum. Fæstir eru á móti innihaldinu ef þeir kynna sér frumvarpið almennilega.“

Katrín er óhrædd við að bauna á lögmannastéttina, sem hún tilheyrir raunar sjálf: „En kannski finnst sumum lögfræðingum bara ágætt að þeir séu milliliðir í því að túlka skjalið fyrir fólki. Það er samt algjörlega galið að fólk geti ekki lesið grunnlögin okkar og áttað sig á því um leið um hvað málið snýst. Í slíku ógegnsæi þrífst spilling og leyndarhyggja. Nýja stjórnarskráin tekur á þessu og er þannig uppbyggð að hún lýsir þjóðfélaginu okkar á mannamáli, en ekki einhverju allt öðru samfélagi.“


VII | Stjórnarskrárgjafinn

Þá staðreynd að það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn má kalla einn hornsteina lýðveldisins. Uppspretta ríkisvalds er hjá þjóðinni, um það efast fáir enda er þetta grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja.

Björg Thorarensen, lagaprófessor, er sérfræðingur í stjórnskipunarrétti og átti sæti í stjórnlaganefnd. Hún leggur orð í belg: „Hugmyndin um beint lýðræði tengist öðrum undirstöðum stjórnskipunarinnar, einkum sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar. Með því er viðurkennt að þótt stjórnskipunin sé reist á fulltrúalýðræði skuli þjóðin taka beina og milliliðalausa afstöðu til tiltekinna mála, sem lúta að mikilvægum hagsmunum eða um ákveðin mál, svo sem stjórnarskrárbreytingar, enda sé þjóðin sjálf stjórnarskrárgjafinn.“

Þetta felur í sér að þjóðin hefur endanlegt vald til þess að ákveða leikreglurnar sem fulltrúar hennar í æðstu stöðum, handhafar ríkisvaldsins hverju sinni, spila eftir. Reglurnar eru enda kjölfesta stjórnskipulagsins og eiga að stuðla að sátt og samhljómi á milli þjóðarinnar og þjóðkjörinna fulltrúa.

Björg segir að í þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrárefni, felist hvorki leiðbeining né ráðgjöf. Þar beiti þjóðin einfaldlega valdi sínu sem stjórnarskrárgjafi. Valdi sem ekki sé hægt að taka af henni með einhliða yfirlýsingum: „Í Evrópuríkjum þar sem þjóðin kýs um nýja stjórnarskrá er niðurstaða atkvæðagreiðslu ávallt lagalega bindandi lokaorð. Reyndar eru ráðgefandi atkvæðagreiðslur óþekktar í ríkjum sem lengst hafa náð í þróun beins lýðræðis,“ segir Björg.

Áhugaverðir tímar

Átök og togstreita á milli valdsþátta er engu að síður algeng og jafnvel æskileg í lýðræðisríkjum, þar sem stjórnskipulagið hvílir á þremur greinum; löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Þrískiptingin er kerfi til þess að tempra vald, dreifa völdum og setja þeim sem fara með vald skorður. Afar sjaldgæft er þó að deilt sé um sjálfa uppsprettu valdsins, en munið… við lifum á áhugaverðum tímum.

Það kom því mörgum í opna skjöldu þegar forsætisráðherra þjóðarinnar, Katrín Jakobsdóttir, lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali að Alþingi væri stjórnarskrárgjafinn. Katrín sagði: „Á meðan þingið er stjórnarskrárgjafinn í þessu landi, þá er mikilvægt að þingið nái sem bestri samstöðu um breytingar á stjórnarskrá.“

Viðvörunarljós blikka

Af þessu tilefni birtir Katrín Oddsdóttir opið bréf til nöfnu sinnar í Stjórnarráðinu, þar sem hún lýsir furðu á orðum ráðherra: „Viðvörunarljós hafa blikkað í hausnum á mér frá því ég heyrði þig segja þetta og ég hef satt að segja varið síðustu sólarhringum að nokkru leyti í það að skoða fréttamiðla og fésbókarsíður í þeirri von að þetta hafi verið mismæli sem þú hafir ákveðið að leiðrétta um leið og þú áttaðir þig á þeim.“ Katrín segir þá von ekki hafa ræst og bréfið tilraun til að ná eyrum ráðherrans.

„Nei, kæra Katrín. Þingið er ekki stjórnarskrárgjafinn. Það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Í ljósi þess að engin leiðrétting hefur borist, hef ég af því hyldjúpar áhyggjur að í ummælunum kristallist sá skýri vandi sem stendur Íslendingum fyrir þrifum varðandi það að eignast sína eigin stjórnarskrá,“ skrifar Katrín og minnir um leið á þessa grundvallarundirstöðu lýðræðisskipulagsins.

„Nú er kominn tími til efnda. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn en ekki þingið, og þjóðin hefur talað. Lögfesting nýju stjórnarskrárinnar er friðsæl aðferð til að auka heill og hamingju þessarar þjóðar og við þessari grundvallarkröfu þjóðarinnar ber þinginu skylda til að bregðast með því að leggja hana til grundvallar fyrir stjórnarskrá Íslands,“ skrifar Katrín til Katrínar og biðlar til ráðherrans um að láta á það reyna hvort ekki sé meirihluti fyrir því á þingi að lögfesta nýju stjórnarskrána.

Sagan hafi enda sýnt að Alþingi sé ófært um að endurskoða stjórnarskrána með heildstæðum hætti. Kannanir sýni þó að meirihluti þjóðarinnar telji mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá sem fyrst: „Við getum ekki lengur búið við það að stjórnmálaflokkar sem hafa ekki meirihluta þjóðarinnar á bak við sig komi í veg fyrir það að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu nái fram að ganga, skrifar Katrín í Kjarnann 13. maí 2019.

Þjóðin eða þingið?

Yfirlýsing forsætisráðherra varð til þess að málið var tekið upp á Alþingi, þar sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, reyndi að fá forsætisráðherra til þess að útskýra orð sín, eða draga yfirlýsinguna til baka.

Þórhildur sagði: „Í þessum orðum virðist felast sú afstaða að valdið til að setja íslensku þjóðinni stjórnarskrá, grundvallarlög þjóðarinnar, sé hjá Alþingi, að okkur sem hér sitjum sé falið valdið til að ákveða leikreglurnar sem gilda í samfélaginu og einnig leikreglurnar sem gilda fyrir okkur sem setjum reglurnar.“

Hún spurði ráðherra í hvers umboði hún teldi sig starfa; þjóðarinnar, þingsins eða formanna stjórnmálaflokkanna: „Í stuttu máli spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra: Hver er stjórnarskrárgjafinn að mati hæstvirts forsætisráðherra? Er það þingið eða er það þjóðin?“

Fyrirkomulagið skýrt

Katrín Jakobsdóttir svaraði spurningunni ekki beint og reyndi að draga úr mikilvægi yfirlýsingarinnar. Hún sagði orðin ekki merkja annað en að breytingar á stjórnarskrá þyrftu að hljóta samþykki á þingi, tvisvar. Það sé fyrirkomulagið samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Málsmeðferðin sé skýr.

„Ég lít hins vegar líka svo á að við öll sem hér sitjum, bæði ég og háttvirtur þingmaður og allir aðrir háttvirtir þingmenn og hæstvirtir ráðherrar, sitji hér í umboði þjóðarinnar, og skyldur okkar eru ekki eingöngu gagnvart okkar kjósendum í okkar kjördæmi heldur gagnvart samfélaginu öllu og þjóðinni allri. Þess vegna ber okkur ávallt að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum okkar,“ sagði forsætisráðherra.

Þórhildi þótti svarið ekki fullnægjandi, enda sagðist hún hafa verið að inna forsætisráðherra eftir eigin viðhorfi gagnvart því hver væri stjórnarskrárgjafinn, fremur en að kalla eftir fræðilegri nálgun. Mikilvægt væri að persónuleg skoðun ráðherra kæmi skýrt fram, ekki síst vegna yfirstandandi vinnu við endurskoðun stjórnarskrár, í hvaða anda og á hvaða grunni hún væri framkvæmd.

„Ef viðhorfið er það að þingið „á þetta og má þetta“ en ekki þjóðin hef ég áhyggjur af gildi þess ferlis líka. Ég fékk það ekki skýrt fram í svari hæstvirts forsætisráðherra hvort henni fyndist hinn raunverulegi stjórnarskrárgjafi, þrátt fyrir ferla og form og annað, vera þjóðin eða þingið,“ sagði Þórhildur og ítrekaði spurningu sína.

Katrín fór diplómatísku leiðina í seinna svari sínu og sagðist telja að þær stöllur væru ekki ósammála í málinu: „Í fyrsta lagi er það svo að þingið þiggur sitt umboð frá þjóðinni, ávallt, og því vil ég ekki tefla þingi og þjóð fram sem andstæðum heldur sitjum við hér í umboði þjóðarinnar,“ sagði ráðherra og hélt áfram: „En hér var auðvitað líka spurt: Á að byggja á drögum stjórnlagaráðs? Svarið við því var játandi. En ég hef líka sagt að ég líti ekki svo á að þar með séum við bundin frá orði til orðs þeim ákvæðum heldur byggjum við á þeim grunni og vinnum áfram á þeim grunni sem þar var lagður og þjóðin gaf okkur leiðsögn um í þessari atkvæðagreiðslu.“


VIII | Dramatískt vor

Eftir álagspróf stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var komið að því að þingheimur allur fjallaði um frumvarp stjórnlagaráðs og tillögur að allnokkrum breytingum, flestum óefnislegum. Fyrir lá að Sjálfstæðisflokkur og þingmenn í stjórnarandstöðu ætluðu sér að beita málþófi og leitast við að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins. Þingkosningar voru framundan og ljóst að hiti og spenna myndu lita lokin á þessu sögulega kjörtímabili. Öðrum stórmálum var einnig ólokið sem flækti stöðuna enn frekar.

Málið endaði úti í skurði og í raun má færa rök fyrir því að nýja stjórnarskráin hafi hlotið náðarhöggið á Alþingi vorið 2013.

Þegar Katrín Oddsdóttir er innt eftir því hvað hún telji að hafi gerst á þinginu, er ljóst að hún hefur hugsað mikið um atburðina í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem fram fór í október 2012. Þar samþykktu kjósendur að frumvarp stjórnlagaráðs skyldi lagt til grundvallar stjórnarskrá lýðveldisins: „Ég man gleðitilfinninguna þegar þjóðaratkvæðagreiðslunni lauk og ljóst var að aukinn meirihluti hefði samþykkt frumvarpið. Þá trúði ég því í einlægni að málið væri leyst, að málið væri í höfn. Mig óraði ekki fyrir því að þetta gæti farið svona, að það yrði þingið sem myndi snúa baki við þjóðinni.“

Þetta má ekki

Hún heldur áfram: „Eftir því sem árin hafa liðið, hefur þetta vakið með mér mjög mikla gremju og reiði, þó ég sé nú alls ekki manneskja sem reiðist auðveldlega. Fyrst hélt ég að það væri bara tímaspursmál hvenær þingið myndi klára málið en nú átta árum síðar er ljóst að þingið hefur lítinn áhuga eða vilja til að klára þetta.“

„Það er í raun eitthvað sem ég get alls ekki sætt mig við. Ástæðan fyrir því að maður er enn að hamast í þessu, er að ég held að þarna séum við að gera mjög stór mistök sem þjóð. Að nota svona öflugt lýðræðistæki, sem þjóðaratkvæðagreiðsla er, kalla fram vilja kjósenda um algjört grundvallarmál, sjálf grunnlögin, en svo ákveður Alþingi, sem sækir umboð sitt til þessara sömu kjósenda, að hunsa niðurstöðuna.“

Katrínu er mikið niðri fyrir þegar hún fer yfir málið með blaðamanni: „Þetta má ekki, bara má ekki gerast. Ég held að fólkið á þinginu viti það innst inni, því þarna er algjörlega verið að hunsa þá staðreynd að það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn. Það gengur alls ekki að Alþingi hunsi vilja þjóðarinnar með þessum hætti.“

Baráttuþrek skorti

Aðspurð hvers vegna hún telji að ekki hafi tekist að ljúka málinu vorið 2013, af sama þingi og samþykkti að setja ferlið af stað upphaflega, segir Katrín:„Ég held að baráttuþrek ríkisstjórnar Jóhönnu hafi því miður klárast og sumir þingmenn í hennar flokki hafi ekki haft þrek né vilja til að ljúka málinu. Staðan var alls ekki öfundsverð og fjöldi annarra ágreiningsmála óleyst sem tóku líka tíma,“ segir Katrín.

Hún segir að brotthvarf Jóhönnu sem formanns Samfylkingarinnar hafi skipt sköpum: „Það skipti líka máli að rétt fyrir lok kjörtímabilsins var skipt um formann. Árni Páll áttaði sig engan veginn á því hversu mikilvægt málið var. Hann svæfði málið. Ég vona að hann átti sig á því núna að þetta voru rosaleg mistök.“ Katrín segir það sorglegt að Árni Páll Árnason hafi ekki látið stöðva málþófið þegar á hann var skorað: „Hann hefði átt að stöðva umræður í krafti þingskapa.“

Hún heldur áfram: „Frumvarpið hefði einfaldlega átt að fara í atkvæðagreiðslu. Fyrir lá að meirihluti þingmanna hafði lýst því yfir opinberlega að þeir myndu kjósa með skjalinu og því ömurlegt að málið hafi ekki verið tekið til atkvæða.“ Að hennar mati hefði aðgerðin verið réttlætanleg þar sem um grunnlögin er að ræða og slíkt ekki skapað fordæmi: „Niðurstaðan er að Sjálfstæðisflokkurinn komst upp með að stöðva lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar með málþófi, því miður.“

Auðvelt að dreifa ótta

„Í þessu máli reyndist það andstæðingum málsins vel að sá fræjum ótta og óöryggis meðal þingmanna, sem kannski margir voru ekki löglærðir og óttuðust að gera mistök með því að samþykkja. Þeim tókst vel upp,“ segir Katrín og lýkur máli sínu með því að spá fyrir um framhaldið: „Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áhuga að nýja stjórnarskráin verði lögfest á þessu þingi. En ég held samt að það sé mikið af góðu fólki í flokknum sem muni á endanum átta sig á því að þessu máli verður ekki ýtt til hliðar að eilífu.“

Taka má undir með Katrínu að líklega hafi þingmenn, hliðhollir breytingum á stjórnarskrá, misst sjónar á verkefninu og ekki tekist að lyfta sér yfir deilur, sem minna skiptu en framgangur stjórnarskrármálsins, eftir allt sem á undan var gengið. Þar undir voru í raun þau fögru fyrirheit sem birtust á samfélagslegum vettvangi í kjölfar hrunsins, lýðræðisvakning og mótmælamenning, upprisa borgaranna gegn valdinu og því ofríki sem útrásarárin og hrunið báru með sér.

Þar undir var samstaða Alþingis um ferlið sem tók við af hruninu, þjóðfundurinn, skýrsla stjórnlaganefndar, afrakstur stjórnlagaráðs, skýrar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem og yfirgripsmikil vinna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Þetta yfirgripsmikla ferli var kaffært á Alþingi vorið 2013 og nýja stjórnarskráin sett á ís.


IX | Við sem byggjum Ísland

Þegar litið er til baka er óumdeilt að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, stjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna færðist mikið í fang á árunum eftir hrun.

Hún vildi breyta grunnlögunum og setja landinu nýja stjórnarskrá, gera breytingar á stjórn fiskveiða – kvótakerfið var allt undir. Að ógleymdri aðildarumsókn að ESB og Icesave-málinu. Allt verkefni sem hefðu, undir eðlilegum kringumstæðum, hvert og eitt tekið heilt kjörtímabil. Ónefndar eru þær fordæmalausu efnahagslegu þrengingar sem stjórnin þurfti að glíma við vegna falls fjármálakerfisins.

Það var þó ekki hvað síst Landsdómsmálið sem klauf þjóðina og stjórnmálaflokka í herðar niður á þessum sögulegu tímum. Það stórmál hafði varanleg áhrif á allt sem eftir kom á vettvangi stjórnmálanna og var ekki sá farvegur sátta og sannleika sem vonast var til. Þjóðin hefði þó sannarlega þurft á slíku uppgjöri að halda en þegar kom að því að kalla einstaklinga til ábyrgðar, gekkst enginn við ábyrgð.

Krónuveira og kórónuveira

Við sem byggjum Ísland erum fá. Hér í litla lýðveldinu við nyrsta haf er það ekki líkamleg eða landfræðileg fjarlægð frá valdinu sem kemur í veg fyrir umbætur og breytingar á stjórnarskrá. Þingmenn eru eflaust allir af vilja gerðir til að ræða málin og mæta á fundi… þegar samkomubanni sleppir.

Nei, hér skortir fremur viljann til að bera virðingu fyrir því hvaðan valdið sprettur, að viðurkenna að ríkisvaldið stafar allt frá þjóðinni. Það er þjóðin sem er uppspretta samfélagslegs valds og ekki bara á fjögurra ára fresti.

En nú er allt á hvolfi, tímabundið. Minningar frá efnahagshruninu þegar krónuveira herjaði á landið og smitaði fólk af græðgi, afturhvörf frá þeim hliðarveruleika sem þjóðin hefur verið föst í á eftirhrunsárunum, birtast ljóslifandi á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Landið liggur í dróma og stjórnarskráin á ís.

Viðfangsefnið er ekki ósvipað; samfélagið þarf að reisa við eftir hamfarir og stappa stáli í litla og kvíðna, en fullvalda þjóðina. Ekki vantar sérfræðinga frekar en fyrri daginn, munurinn er þó sá að aðeins alvöru sérfræðingar, vopnaðir góðri menntun geta bjargað okkur frá þessari bráðsmitandi veiru, snákasölumenn síður.

Ný stjórnarskrárstund

Fá orð ná raunverulega utanum það ógnvænlega ástand, það óveður sem nú blasir við á heimsvísu. Við erum stödd í auga stormsins. Breytingar á stjórnarskrá er eðlilega ekki forgangsmálið og önnur úrlausnarefni þurfa fyrst óskipta athygli.

Þannig var það líka í hruninu. En þegar veðrinu slotar og veiran hverfur, má telja líklegt að við munum aftur leiða hugann að því sem sameinar okkur, sáttmála samfélagsins. Þannig var það í kjölfar hrunsins. Ný stjórnarskrárstund nálgast.

Heilbrigð skynsemi er þó sem fyrr, besta vopnið.

Allt er breytt samt breytist ekkert…

. . .

Verkefni í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands
Viðmælendur: Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason
Kennari Anna Lilja Þórisdóttir
Nemandi Sigurður Kaiser