Vigdís Finnbogadóttir

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996

Vigdís Finnbogadóttir fæddist 15. apríl 1930 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Finnbogi Rútur Þorvaldsson (1891-1973), hafnarverkfræðingur og prófessor í verkfræði og Sigríður Eiríksdóttir (1894-1986), hjúkrunarfræðingur og formaður Hjúkrunarfélags Íslands.

Vigdís lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1949.

Hún stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum við háskólana í Grenoble og Sorbonne í París, með leikbókmenntir sem sérgrein.

Hún lagði síðar stund á ensku og frönsku við Háskóla Íslands, einnig með áherslu á leikbókmenntir og stundaði jafnframt nám í uppeldis- og kennslufræðum. Vigdís nam síðar leiklistarsögu í Kaupmannahöfn og lærði frönsku í Uppsölum.

Vigdís var blaðafulltrúi Þjóðleikhússins 1954-1957 og aftur 1961-1964, leiðsögumaður á sumrin um árabil, kennari við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og við Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Hún kenndi um skeið við Háskóla Íslands og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972-1980 í Iðnó áður en hún tók við embætti forseta Íslands árið 1980.

Vigdís Finnbogadóttir var fyrsta konan í heiminum sem kjörin var forseti í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sumarið 2006 fékk Vigdís heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands fyrir ævistarf í þágu leiklistar. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti henni verðlaunin á Grímuhátíðinni í Borgarleikhúsinu þann 16. júní 2006, við mikil fagnaðarlæti samstarfsfólks og vina.

. . .

Heimildir

Forseti.is

Vigdís.is